Bandaríski námsmaðurinn látinn

Otto Warmbier.
Otto Warmbier. AFP

Bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier, sem var látinn laus úr haldi stjórnvalda í Norður-Kóreu eftir að hafa verið í haldi þeirra í rúmt ár, er látinn. Warmbier var 22 ára gamall en hann var fluttur til Bandaríkjanna í dái í síðustu viku.

Fram kemur í frétt AFP að Warmbier hafi orðið fyrir alvarlegum heilaskaða á meðan hann var í haldi í Norður-Kóreu. Hann lést í morgun að viðstöddum nánustu ættingjum sínum í heimaborg sinni Cincinnati í Ohio-ríki í Bandaríkjunum.

Warmbier var handtekinn þegar hann var á ferðalagi í Norður-Kóreu og sakaður um að hafa reynt að stela veggspjaldi á hóteli. Var hann dæmdur til 15 ára þrælkunarvinnu.

Ráðamenn í Norður-Kóreu segja að hann hafi fallið í dá skömmu eftir sakfellingu í kjölfar veikinda. Fjölskylda Warmbiers hefur fordæmt meðferð þarlendra stjórnvalda á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert