Hættuleg blanda hita og eldfims gróðurs

Eldtungur teygja sig upp úr skóginum í nágrenni þorpsins Mega …
Eldtungur teygja sig upp úr skóginum í nágrenni þorpsins Mega Fundeira. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir vegna skógareldanna sem meira en sextíu hafa fallið í. AFP

Portúgal er sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og því er hætta á því að fleiri gríðarmiklir skógareldar, líkir þeim sem nú geisa, verði í landinu í framtíðinni. Yfir sextíu eru taldir af eftir eldana síðustu daga. 

Búist er við því að hitastigið á Íberíu-skaga, þar sem Spán og Portúgal er að finna, verði hærra í sumar en í meðalári og að sömuleiðis verði þurrara í veðri. Þetta segir Thomas Curt, vísindamaður við frönsku Irstea-stofunina, sem rannsakar loftslag og áhrif þess á landbúnað. Curt segir að hættan á skógareldum við þessar aðstæður sé ríkari í Portúgal en víða annars staðar þar sem þar vaxi margar eldfimar plöntur, m.a. furu- og gúmmítré. 

Samspil allra þessara þátta; heits og þurrs lofts og eldfims gróðurs, sé hættuleg blanda. „Eftir því sem hitastigið hækkar þeim mun meiri hætta verður á ofsafengnum skógareldum.“

Slökkviliðsmenn hvíla sig á milli orrustana við skógareldana í Portúgal.
Slökkviliðsmenn hvíla sig á milli orrustana við skógareldana í Portúgal. AFP

Hitastig á svæðinu hefur hækkað meira en meðalhiti jarðar á síðustu fimmtíu árum. Hitabylgjur eru orðnar algengari og dregið hefur úr árlegri úrkomu. 

Samkvæmt spám mun hitabylgjum fjölga í nánustu framtíð og þar með hættan á gróðureldum. Bæði er talin hætta á að þeim fjölgi, þeir verði stærri og að tímabilið sem hætta er á þeim verði lengra. „Þetta er víst, við erum að upplifa hækkun hitastigs,“ segir Curt um þessar spár. 

Sumartíð á norðurhveli jarðar hefur lengst síðustu fimmtíu ár. Áður var hún frá júlí til ágúst en nú er hún frá júní til október. Þar með geta skógareldar kviknar á lengra tímabili ár hvert en áður.

Curt segir að fleiri stóreldar, sem ná yfir meira en 100 hektara lands, hafi kviknað síðustu ár og sömu sögu megi segja um svokallaða ofurelda sem brenna á yfir 1.000 hektara landi.

„Þetta er sannarlega vaxandi vandamál alls staðar í heiminum, sérstaklega í löndum Evrópu við Miðjarðarhafið.

Reykjarsúlur stíga til himins og hindruðu geisla sólar í því …
Reykjarsúlur stíga til himins og hindruðu geisla sólar í því að ná til jarðar. AFP

Ofureldar eru enn sjaldgæfir. Þeir telja um 2-3% allra skógarelda. En í þeim brennur svo mikið land, eða um 25% af öllu landi sem brennur árlega í gróðureldum. „Margar greiningar á loftlagsbreytingum benda til að þessir gríðarlega miklu eldar verði sífellt algengari,“ segir Curt. 

Til skamms tíma þarf að bregðast við með meira eftirliti, fjölgun slökkviliðsmanna, uppsetningu varðturna og með því að banna með öllu að kveikja elda í skóglendi.

Til lengri tíma litið þarf að endurhanna hvernig búsetu fólks er háttað í og við græn svæði, að sögn sérfræðinga. 

Í einhverjum tilvikum gæti þurft að höggva niður skóga, ryðja skógarbotna og færa íbúabyggð fjær mörkum stórra gróðurlenda, að sögn talsmanna World Wildlife found.

Curt segir að viðbrögðin þurfi að vera enn meiri. „Auðvitað þurfum við í framtíðinni að hindra frekari hlýnun jarðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert