Hverfisbúar óttaslegnir í kjölfar árásar

Fólkið sem varð fyrir árás fyrir utan mosku í London skömmu eftir miðnætti í nótt var að aðstoða mann sem hafði hnigið niður á gangstéttina. Árásarmaðurinn ók sendibifreið inn í hópinn. Einn lést og tíu særðust, þar af tveir mjög alvarlega. Sá sem lést er maðurinn sem hópurinn var að stumra yfir. 

48 ára gamall maður er í haldi lögreglu grunaður um árásina skammt frá Finsbury Park moskunni að sögn lögreglu. Allir þeir sem urðu fyrir bílnum eru múslímar. 

Vitni að árásinni, Abdul Rahman, segir í samtali við BBC að bílstjórinn hafi sagt að hann vildi drepa alla múslíma. 

Aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni í London, Neil Basu, segir að hryðjuverkaárásin hafi hafist þegar sendibifreiðinni var ekið á mann sem þegar var verið að veita aðstoð af vegfarendum. 

„Því miður lést maðurinn en það er enn of snemmt að segja til um hvert banamein hans er,“ sagði Basu þegar hann ræddi við blaðamenn í morgun.

Talið er að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki. Líkt og hefðbundið er þegar um slíkar árásir er að ræða verður árásarmanninum gert að sæta geðrannsókn.

Tæknideild lögreglunnar rannsakar nú hvíta sendibílinn en árásin var gerð í hverfi sem er þekkt fjölmenningarsamfélag þar sem helsta deilumálið er hvort fólk styðji Arsenal eða Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. 

BBC segir að íbúar hverfisins séu skelfingu lostnir vegna atburða næturinnar. Ein þeirra er Nicola Senior, fjögurra barna móðir, sem BBC ræddi við í morgun. „Ég er hrædd. Eigum við von á hefndaraðgerðum?“

Senior segist óttast um hag barna sinna og hvort þau geti áfram leikið sér í garðinum eða hvort allir þurfi alltaf að vera á varðbergi.

Fjölmargir leiðtogar kristinna trúarhópa í Bretlandi hafa lýst yfir samúð og stuðningi við fórnarlömb árásarinnar og aðstandenda þeirra. 

Á sér dökka fortíð

Finsbury Park moskan var hins vegar áður þekkt sem vagga öfga-íslamista. Þar réð ríkjum múslímaklerkurinn Abu Hamza frá árinu 1997 en hann var síðan framseldur til Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum. Hamza var vikið frá árið 2002 en hélt áfram að boða hatur fyrir utan moskuna og hvetja til hryðjuverka. Hamza var meðal annars þekktur fyrir að vera eineygður og með krók en hann laug því á sínum tíma að hann hafi særst í Afganistan þegar hann barðist með al-Qaeda gegn Rússum. Hið sanna er að meiðslin hlaut hann í þjálfunarbúðum al-Qaeda í Pakistan. 

Hamza var handtekinn árið 2004 og dæmdur árið 2006 í sjö ára fangelsi fyrir að hafa hvatt til morða og kynþáttahaturs í ræðum sínum. Í janúar 2015 var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi í Bandaríkjunum án möguleika á náðun. Meðal brota sem hann var dæmdur fyrir var  hafa átt þátt í gíslatöku í Jemen árið 1998, fyrir að hafa hvatt til ofbeldisfulls heilags stríðs í Afganistan árið 2001 og fyrir að hafa komið á laggirnar hryðjuverkabúðum í Oregon-ríki í Bandaríkjunum.

Bretinn Richard Reid, „skósprengjumaðurinn“ svonefndi er einn þeirra sem stunduðu moskuna á þeim tíma sem Hamza var þar klerkur. Reid var handtekinn í desember árið 2001 fyrir að ætla að sprengja farþegaþotu með sprengju sem hann faldi í skósóla.

Annar fastagestur var Zacarias Moussaoui en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir hans hlut í hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Var hann fundinn sekur um að vera félagi í al-Qaeda-hryðjuverkasamtökunum og hafa ætlað að taka þátt í árásinni. Hamza neitaði hins vegar alltaf að hafa þekkt þá tvo.

Moskunni við Finsbury Park var lokað tímabundið árið 2003 eftir áhlaup lögreglu þar inn þrátt fyrir að Hamza hafi ekki lengur fengið að stíga fæti sínum þangað inn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert