Morðmál í Wigan vekur óhug

Ellen Higginbottom var 18 ára gömul.
Ellen Higginbottom var 18 ára gömul.

Lögreglan í Wigan í Bretlandi hefur handtekið tvo menn sem grunaðir eru um að hafa orðið unglingsstúlku að bana. Málið hefur vakið mikinn óhug en stúlkan fannst látin á laugardagsmorgun.

Stúlkan hét Ellen Higginbottom og var 18 ára gömul. Tilkynnt var um hvarf hennar seinnipartinn á föstudag þegar hún skilaði sér ekki heim eftir skóla. Í kjölfarið hófst leit, og fannst hún látin í Orrell Water Park snemma á laugardag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði verið ráðist á stúlkuna nálægt Wistanley-framhaldsskólanum og var hún með fjölda áverka, sérstaklega í kringum hálsinn. Tveir menn, 47 og 51 árs gamlir, voru í gær handteknir vegna málsins.

Rannsókn málsins er enn á fyrstu stigum, en lögregla mun meðal annars halda áfram að rannsaka svæðið þar sem stúlkan fannst.

Samnemendur Higginbottom hafa minnst hennar á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring og sagt hana hafa verið yndislega og umhyggjusama stúlku.

Þá var send út tilkynning frá skóla hennar í gær þar sem fram kom að samfélagið væri slegið yfir atburðunum og myndi nú „syrgja missi dásamlegrar ungrar konu“.

Frétt Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert