Íslendingar voru staddir á árásarstaðnum

Fjölskyldan var stödd á ferðamannastaðnum Kangaba Le Compement þar sem …
Fjölskyldan var stödd á ferðamannastaðnum Kangaba Le Compement þar sem árásarmenn létu til skara skríða í gær. AFP

Íslensk-norsk fjölskylda var stödd á ferðamannastaðnum Kangaba Le Cam­pement, skammt frá höfuðborg­inni Bama­ko í Afríkuríkinu Malí, þar sem vopnaðir menn gerðu árás í gær. Sveinn Einar Friðriksson Zimsen stundar kristniboð í Norður-Afríku og var staddur ásamt fjölskyldu sinni, norskri eiginkonu, fjórum börnum og móður sinni, á ferðamannastaðnum þegar árásarmennirnir létu til skara skríða. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er fjölskyldan heil á húfi og er komin í öruggt skjól í Bamako. Staður­inn er vin­sæll meðal vest­rænna ferðamanna en að minnsta kosti tveir eru eru látn­ir eftir árásina, þar af tveir starfsmenn Evrópusambandsins. Þá tóku árásarmennirnir um 20 manns í gísl­ingu sem aftur hefur verið sleppt. 

Starfsmenn norska kristniboðssambandsins NLM hafa verið í sambandi við fjölskylduna og í samtali við mbl.is staðfestir Epsen Ottosen að fjölskyldan sé heil á húfi og dvelji nú í öruggu skjóli á vegum Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni Bamako. 

Að sögn Ottosen hafa Sveinn og fjölskylda starfað í Malí í mörg ár og hafa búið í þorpi sem er í um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð frá Bamako. „Ég hef ekki talað beint við fjölskylduna en ég heimsótti þau fyrir um ári síðan og þekki þau persónulega,“ segir Ottosen.

„Ég get staðfest að þau eru örugg, þau eru enn í Bamakó í skjóli á vegum Sameinuðu þjóðanna en þau stefna á að fara til Fílabeinsstrandarinnar,“ segir Ottosen. Svæðisskrifstofa NLM í Vestur-Afríku er á Fílabeinsströndinni og hyggst fjölskyldan fara þangað innan nokkurra daga að sögn Ottosen.

Á heimasíðu NLM er haft eftir Kjell Jaren, svæðisstjóra NLM í Vestur-Afríku, að óvissuástand hafi ríkt á svæðinu í nokkrar klukkustundir. Þegar búið hafi verið að tryggja svæðið hafi fjölskyldan verið flutt í öruggt skjól á vegum Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert