Vilja fella bresku stjórnina

AFP

Þingmenn Verkamannaflokksins, Frjálslyndra demókrata og Skoska þjóðarflokksins ætla að taka höndum saman og reyna að fella ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, með því að leggja fram breytingatillögur við stefnu hennar sem kynnt verður í ræðu Elísabetar Bretadrottningar við þingsetningu á miðvikudaginn.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír vonast til þess að geta sannfært nógu marga þingmenn Íhaldsflokks forsætisráðherrans eða Lýðræðislega sambandsflokksins, sem íhaldsmenn styðjast við til þess að mynda þingmeirihluta eftir að þeir misstu meirihluta sinn í þingkosningunum fyrr í þessum mánuði, um að styðja breytingatillögurnar.

Takist að gera breytingar á stefnu ríkisstjórnarinnar gæti það opna á vantrauststillögu á stjórnina. Flokkarnir ætla meðal annars að leggja fram tillögur um lagaleg réttindi leigjenda til þess að krefjast þess að brunavarnir séu í lagi og greiðari aðgangs Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins í kjölfar útgöngunnar úr sambandinu.

Ennfremur er ætlunin að leggja fram breytingatillögur um að að komið verði á sérstöku hagsmunaráði vegna viðræðna við Evrópusambandið, varið verði nokkur hundruð milljón pundum meira til heilbrigðiskerfis Bretlands og að landamærin á milli Írlands og Norður-Írlands verði áfram opin eftir að Bretar hafa sagt skilið við sambandið.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Reiknað er með því að tillögurnar verði lagðar fram á morgun um svipað leyti og vinstrisinnaðir aðgerðasinnar hafa boðað til mótmælagöngu að breska þinghúsinu gegn niðurskurði. Verði aðeins ein þessara bryetingatillaga samþykkt gæti það leitt til þess að ríkisstjórnin falli samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph

Sögulega séð hefur slíkt leitt til þess að forsætisráðherra hefur þurft að segja af sér. Það gerðist síðast 1924. Hins vegar voru þær breytingar gerðar með lögum 2011 að fimm ára kjörtímabil voru fest í sessi nema annað sé samþykkt af þinginu og ennfremur kveðið á um að leggja þurfi fram vantrauststillögu til þess að fella ríkisstjórnina.

Haft er eftir heimildarmanni í breska þinginu að ef breytingatillaga yrði samþykkt þýddi það að taka þyrfti ákvörðun um það hvort ríkisstjórnin væri nógu sterk til þess að starfa áfram. Búist er við að atkvæðagreiðsla um stefnu ríkisstjórnarinnar og breytingatillögurnar fari fram að lokinni umræðu í kjölfar ræðu drottningar á miðvikudaginn.

Hins vegar kemur fram í fréttinni að þingmenn Lýðræðislega sambandsflokksins hafi ekki í hyggju að greiða atkvæði gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Þá er haft eftir þingmönnum Íhaldsflokksins sem hlynntir eru áframhaldandi veru í Evrópusambandinu að þeir séu ólíklegir til þess að styðja tillögurnar þar sem það gæti fellt stjórnina.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert