Drekka kokkteila í kúlnaregni

Á meðan flestir Venesúelamenn eiga vart fyrir mat stundar lítill hópur fólks í landinu einkaklúbba, drekkur kokkteila og borðar sushi. 

Fátækt breiðist út um landið eins og faraldur og átök blossa nær daglega upp á götum úti. En auðugur minnihluti landsmanna virðist vera nær ósnortin af þessu eldfima ástandi. Nú er svo komið að í Karakas, einni hættulegustu borg veraldar, hefur verið opnaður fyrsti Buddha Bar-staðurinn í Suður-Ameríku. Þessi alþjóðlega næturklúbbakeðja, sem sótt er af efnafólki, telur sum sé hagnaðarvon til staðar í landi þar sem erfitt getur verið að kaupa nauðsynjar á borð við hveiti og sykur. Á Buddha Bar geta gestir keypt sér túnfiskssteik, svínarif og taco-skeljar - svo lengi sem þeir eiga peninga til að borga fyrir herlegheitin.

„Þú getur skemmt þér jafnvel í Karakas og í New York, Dubaí eða Sankti Pétursborg,“ segir einn eiganda staðarins, Cristhian Estephan. Sushi-diskur með átta bitum af laxi og rækju kostar ígildi fjórðungs lágmarkslauna í Venesúela. 

Á síðustu mánuðum hefur Venesúela sjaldan komist í heimsfréttirnar nema vegna átakanna á götum úti þar sem öryggisveitir beita mótmælendur táragasi og gúmmíkúlum. Tugir hafa látist og hundruð særst í mótmælunum síðustu vikur. 

Á meðan tugþúsundir, sem margir búa nú við fátækt, flykkjast út á götur til að mótmæla veru Nicolas Maduro forseta á valdastóli er hinn auðugi minnihluti að skemmta sér og njóta lífsins. 

Kona systur við mynd af ungum aðgerðasinna, Neomar Lander, sem …
Kona systur við mynd af ungum aðgerðasinna, Neomar Lander, sem lést í átökum mótmælenda og öryggissveita í Karakas. Mótmælendur vilja forsetann frá völdum. AFP

Barir og veitingastaðir, sem aðeins er á færi fárra að sækja, eru vírgirtir og fyrir utan standa vopnaðir verðir. Buddha Bar var opnaður árið 2015, þegar efnahagskreppan sem nú hefur hert tökin, var þegar byrjuð að láta á sér kræla. 

Ahisquel er viðskiptavinur staðarins. Hún segist taka þátt í mótmælunum en komi svo á barinn einu sinni í viku ásamt eiginmanni sínum sem er forstjóri í olíugeiranum. Líkt og flestir þeir sem fréttamaður AFP-ræddi við á staðnum neitaði hún að gefa upp fullt nafn. 

„Á daginn köstum við steinum en á kvöldin komum við hingað,“ segir hún. „Eftir mótmæli er gott að koma hingað til að slaka á - þó að við slökum aldrei almennilega á fyrr en þessi ríkisstjórn er farin frá völdum.“

Jafnvel efnaðir Venesúelamenn finna fyrir óðaverðbólgunni sem geisar. En þeir fá flestir greitt í dollurum svo að ástandið hefur mun minni áhrif á þá en aðra borgara landsins. 

„Ef þú færð ekki greitt í erlendum gjaldmiðli þá er ekki hægt að búa hér,“ segir eiginmaður Ahisquel.

Margir ríkir Venesúelamenn hafa þegar yfirgefið landið og haldið til Miami, Los Angeles eða Madrídar. Flótti þeirra hófst er Maduro forseti tók við völdum eftir að Hugo Shaves lést árið 2013. Hin sósíalíska bylting Maduros fellur þeim ekki í geð. 

Hundruð hafa slasast og tugir fallið í átökum mótmælenda og …
Hundruð hafa slasast og tugir fallið í átökum mótmælenda og öryggissveita forsetans. síðustu vikur. AFP

 En sumir hafa þó valið að halda kyrru fyrir. Lorenzo Mendoza, eigandi matvælafyrirtækisins Polar og ríkasti maður Venesúela, er einn þeirra. Í hópi hinna auðugu eru menn sem græddu á tá á fingri í valdatíð Chavez. Þeir hafa fengið viðurnefnið „kampavíns-sósíalistar“. 

Carlos er 49 ára gamall lögfræðingur. Hann situr við sundlaug klúbbhússins á golfvellinum í útjaðri Karakas. Hann segist taka til fótanna þegar kampavíns-sósíalistarnir verði á vegi hans. „Við berum kennsl á þá úr fjarlægð,“ segir hann. „Allt er orðið mjög dýrt hérna og þeir einir hafa efni á að lifa mannsæmandi lífi hérna.“

 Hagvöxtur var í Venesúela áður en olíuverðið á heimsmarkaði féll skarpt um mitt árið 2014. 

Colette Capriles, félagsfræðingur við Simon Bolivar-háskóla, segir að auður Venesúela hafi skapast af tekjum ríkisins á olíu. Þegar lægð varð á þeim markaði hafði það mikil áhrif þar sem mikill meirihluti útflutningstekna eru vegna olíunnar. „Ríkið úthlutar þessum tekjum. Stjórn Chavez setti þá sem mest þurftu á að halda í forgang, og setti fjármagn í velferðarmálin,“ segir hún. 

En þetta fyrirkomulag varð líka til þess að þeir sem voru í valdastöðu efnuðust. „Þetta form sósíalisma hefur getið af sér nokkra mjög valdamikla milljónamæringa,“ segir Capriles. „Flestir þeirra eru embættismenn eða fólk sem tengist þeim. Og eins og staðan er núna er þetta fólkið sem heldur ríkisstjórninni saman.“

Lífið heldur áfram, þó að óöld geisi. Maður fylgist með …
Lífið heldur áfram, þó að óöld geisi. Maður fylgist með fótboltaleik milli Úrúgvæ og Venesúela í verslun í Karakas. AFP

Götur Karakas eru nær mannlausar á nóttinni. Íbúarnir eru hræddir við að fara út að næturlagi. Þeir óttast að verða rændir eða drepnir.

 Nær hvergi í heiminum er morðtíðni hærri en í Venesúela. 

En frá allra augum safnast fólk á bari og veitingastaði. Þar er enn líf og fjör. „Efri stéttin hefur ekki hætt að fara út og skemmta sér,“ segir Estephan. „Jafnvel á erfiðum tímum þá hittist fólk, giftist, borðar saman. Sýningin verður að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert