„Ekki nóg að kyssa á bágtið“

Spurningar hafa vaknað um viðbrögð yfirvalda við skógareldunum í Portúgal sem kostað hafa 64 lífið. Yfir þúsund slökkviliðsmenn vinna að því dag og nótt að ráða niðurlögum eldanna sem geisa í miðju landinu.

Mjög þurrt er í veðri og þó að tekist hafi að ná tökum á eldunum, m.a. í Pedrogao Grande, er talin hætta á að þeir kvikni á ný vegna sumarhitans og þurrkanna.

mbl

En eftir því sem líður á slökkvistarfið hafa fleiri spurningar vaknað um viðbrögð yfirvalda á laugardag er eldarnir kviknuðu í úrkomulausu þrumuveðri. Þá hafa vaknað spurningar um viðbragðsáætlanir, sem sagðar eru úreltar, og hvernig skipulagi skóganna á svæðinu er háttað.

Sumir íbúa er langt frá því að vera sáttir við viðbrögð yfirvalda. Einn af þeim er Jose Gomes, prestur í Figueiro dos Vinhos. Hann segir íbúa kvarta undan því að slökkviliðsmenn hafi ekki veitt þeim næga aðstoð og stuðning. „Fólk er ósátt við neyðaraðstoðina,“ segir presturinn. 

Aðrir gagnrýna að vegum hafi ekki verið lokað fyrr en flest fórnarlömbin létust í og við bíla sína á flótta undan eldinum. Fólkið var innlyksa á vegaköflum. 

Af þeim 64 sem létust voru 47 staddir á N-236 þjóðveginum. Þrjátíu þeirra voru fastir í bílum sínum eða fundust látnir í nágrenni þeirra. 

Spænskir slökkviliðsmenn hafa bæst í hóp þeirra sem vinna að …
Spænskir slökkviliðsmenn hafa bæst í hóp þeirra sem vinna að slökkvistarfinu í Portúgal. AFP

Meðal hinna látnu er fjögurra ára gamall drengur, Rodrigo að nafni. Hann var í pössun hjá ættingjum sínum á meðan foreldrar hans voru í brúðkaupsferð. Lík litla drengsins og frænda hans fundust í bíl skammt frá þorpinu Nodeirinho. Þeir höfðu reynt að flýja eldhafið en kviknað hafði í bíl þeirra. 

Enn er fjölmennt slökkvilið að störfum, 1.150 slökkviliðsmenn sem nota um 400 farartæki til starfsins. Frakkar, Ítalir og Spánverjar eru meðal þeirra þjóða sem boðið hafa fram liðsstyrk og tæki. 

Í portúgölskum fjölmiðlum kemur fram að viðbragðsáætlanir fyrir svæðið hafi ekki verið endurskoðaðar og uppfærðar í fjögur ár. Þá er því haldið fram að viðbragðsaðilar hafi átt í erfiðleikum með samskipti og þar af leiðandi samhæfingu er slökkvi- og björgunarstarf hófst. Ert því m.a. haldið fram að loftnet fyrir talstöðvarsamskipti hafi eyðilagst í skógareldunum.

Samkvæmt lögum á að endurskoða neyðaráætlanir á tveggja ára fresti. 

Þyrlur ausa vatni yfir eldana.
Þyrlur ausa vatni yfir eldana. AFP

„Þetta er einhverjum að kenna,“ sagði Helder Amaral, formaður Flokks fólksins, sem er í stjórnarandstöðu á portúgalska þinginu. „Það er ekki nóg fyrir forseta lýðveldisins að kyssa á bágtið. Að segja að ekkert hafi verið hægt að gera er einfaldlega ekki nóg.“

Í dag loga eldarnir enn og reykjarsúlur stíga hátt til himins. 

Um 26 þúsund hektarar lands hafa þegar brunnið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert