Evrópuher aðeins tímaspursmál

Ljósmynd/Evrópuþingið

Einn háttsettasti embættismaður Þýskalands á sviði varnarmála, Hans-Peter Bartels, kallaði eftir því í gær að Evrópuríki sem ættu aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) skipulegðu herafla sína þannig að þeir mynduðu einn her. Sagði hann einungis tímaspursmál hvenær komið yrði á einum Evrópuher samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að Bartels, sem er æðsti embættismaður þýska sambandsþingsins þegar kemur að varnarmálum og fyrrverandi þingmaður Jafnaðarmannaflokksins, bætist þar með í hóp þeirra sem kallað hafi eftir Evrópuher. Ekki síst eftir yfirlýsingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að NATO væri úrelt. Ummæli sem hann dró síðar til baka.

„Að lokum verður til Evrópuher,“ sagði Bartels og ennfremur að evrópskir herir væru í dag illa skipulagðir og notuðust við ólíka tækni og margfalt stofnanakerfi sem væri ónauðsynlegt. Ekki væri lengur vilji til þess að halda sig við þjóðarheri. Sú væri ekki raunin í Þýskalandi, Hollandi, Tékklandi eða á Ítalíu en þegar er hafinn samruni herja Hollands og Þýskalands.

Stjórnvöld í Tékklandi og Rúmeníu einnig sýnt málinu áhuga segir í fréttinni. „Hvert skref í rétta átt er mikilvægt,“ sagði Bartels. Ummæli hans, sem féllu sama dag og fyrsti formlegi viðræðufundurinn vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fór fram, þykja til marks um að sambandið stefni að frekari samrunaskrefum á sviði varnarmála.

Bretland hefur til þess að staðið í vegi fyrir því að komið væri á einni sameiginlegri varnarstefnu Evrópusambandsins. Hins vegar hafa önnur ríki Evrópusambandsins lagt áherslu á að Bretar hafi ekkert um það að segja hvernig málum verði háttað innan sambandsins eftir að þeir hafa sagt skilið við það sem stefnt er að því að verði árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert