Fordæma rússnesku áróðurslögin

AFP

Rússnesk áróðurslög gegn samkynhneigðum mismuna fólki og hvetja til andúðar gagnvart samkynhneigðum. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þrír rússneskir baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra fóru með málið fyrir dómstólinn í Strassborg en rússnesk stjórnvöld lögðu árið 2013 bann gegn áróðri í þágu réttindabaráttu samkynhneigðra í landinu. 

Lögin koma í veg fyrir að samkynhneigðir geti stofnað samtök eða efnt til fjöldasamkomna til að vekja athygli á stöðu sinni. Er tilgangur laganna sagður vera sá að vernda börn fyrir óæskilegum áhrifum.

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins í morgun er sú að með lögunum hafi rússnesk yfirvöld brotið gegn þremenningunum þar sem þau mismuni fólki og ali á fordómum og hatri í garð samkynhneigðra. 

Samkvæmt rússnesku lögunum eiga þeir yfir höfði sér allt að 5 þúsund rúblu sekt sem kynni samkynhneigð fyrir börnum. Opinberir aðilar, fyrirtæki og skólar, eiga yfir höfði sér enn hærri sekt verði þeir uppvísir að því að brjóta lögin. 

Árið 1993 voru lög sem bönnuðu samkynhneigð afnumin í Rússlandi en andúð í garð samkynhneigðra er útbreidd í landinu.

Þremenningarnir, sem fóru með málið fyrir Mannréttindadómstólinn, höfðu allir verið sektaðir fyrir að brjóta lögin. Niðurstaða dómstólsins er sú að sektirnar séu  brot á 10 grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um tjáningarfrelsið og eins 14 grein sáttmálans sem fjallar um bann við mismunun. 

Mennirnir voru á sínum tíma fundnir sekur um að hafa tekið þátt í mótmælum gegn setningu laganna á árunum 2009 til 2012 fyrir utan skóla í Ryazan, fyrir utan bókasafn í Archangel og opinbera byggingu í Pétursborg.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi rússneska ríkið til að greiða mönnunum miskabætur en hér er hægt að lesa fréttatilkynningu Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu.

Meira hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert