Rannsakað sem hryðjuverk

Vopnuð lögregla við lestarstöðina í kvöld.
Vopnuð lögregla við lestarstöðina í kvöld. AFP

Ríkissaksóknari Belgíu segir að atvik sem átti sér stað á Gare-lestarstöðinni í Brussel í kvöld, þar sem karlmaður var skotinn til bana af hermönnum eftir að sprenging varð, sé rannsakað sem hryðjuverk. Maðurinn er sagður hafa verið með sprengjubelti þegar hann var skotinn.

Frétt mbl.is: Sprenging á lestarstöð í Brussel

„Litið er á þetta sem hryðjuverk,“ er haft eftir Eric Van Der Sypt, talsmanni ríkissaksóknara Belgíu. Lítil sprenging hafi orðið á lestarstöðinni um klukkan 20:30 (18:30 að íslenskum tíma). Hinn grunaði hafi verið tekinn úr umferð af hermönnum sem hafi verið staddir á svæðinu. 

Van Der Sypt sagði aðspurður að ekki lægi fyrir hver maðurinn væri og engum öðrum hefði orðið meint af vegna málsins. Hann vildi ekki tjá sig um ummæli sjónarvotts þess efnis að árásarmaðurinn hefði hrópað „Allah Akbar“ fyrir sprenginguna.

Lögreglan telur mögulega hættu á frekari sprengingum.

Uppfært 22:53: Staðfest að árásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert