Tugir létust á „vegi dauðans“

Björgunar- og slökkvistarf gengur erfiðlega í sumarhitanum.
Björgunar- og slökkvistarf gengur erfiðlega í sumarhitanum. AFP

Síhækkandi sumarhitinn í Portúgal hafa tafið slökkvistarf í skóglendum landsins mikið. Skógareldar hafa geisað í fleiri daga og nú þegar hitinn nær 38°C á daginn og vindur blæs halda þeir áfram að breiðast út og óttast er að aftur kvikni í á svæðum þar sem búið var að slökkva glæðurnar.

Yfirvöld telja að búið sé að slökkva í eldunum á um 70% þess svæðis sem brann. Hins vegar er það svæði sem enn logar í illviðráðanlegt. Að minnsta kosti 64 hafa látist í hamförunum frá því á laugardag. Meðal hinna látnu er fertugur slökkviliðsmaður sem lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Flestir létust í bílum sínum eða skammt frá þeim en þetta fólk var að reyna að flýja eldana sem nálguðust hús þeirra óðfluga. Yfir 130 hafa slasast og þurft aðhlynningu á sjúkrahúsum.

mbl

Ríkisstjórnin hefur lýst yfir neyðarástandi í og við Pedrógão Grande sem er norðaustur af höfuðborginni Lissabon.

Yfirvöld segja að slökkvistarfið sé flókið og að enn sé mikil hætta á þeim svæðum þar sem eldar loga enn. Búið er að rýma stór svæði og þörf er á frekari rýmingu.

Yfir þúsund slökkviliðsmenn taka þátt í slökkvistarfinu. Ekki er talið líklegt að það náist að ráða niðurlögum eldanna á næstunni.

Þurrt er á hættusvæðunum, gróðurinn eldfimur og sumarhitinn og vindur skapa aðstæður þar sem eldarnir geta breiðst hratt út og kviknað á svæðum sem áður var búið að slökkva í.

Framhaldið ræðst alfarið á veðri næstu daga. 

Lögreglan segir að elding hafi kveikt eldana á laugardag í mikilli hitabylgju. Þá gerði þrumuveður, eldingum sló niður en veðrinu fylgdi þó engin úrkoma.

Það svæði sem hefur orðið einna verst úti er þorpið Nodeirinho. Þrjátíu lík fundust inni í bílum og önnur sautján skammt frá bílum sem voru á N-236 þjóðveginum. Í portúgölskum fjölmiðlum er N-236 nú kallaður „vegur dauðans.“

Einn slökkviliðsmaður slasaðist við störf og lést síðar á sjúkrahúsi.
Einn slökkviliðsmaður slasaðist við störf og lést síðar á sjúkrahúsi. AFP

Nokkrum kílómetrum norðar létust ellefu í þorpinu Pobrais. Fólkið varð eldinum á bráð er það reyndi að flýja.

Betty Jesus hefur búið á svæðinu í áratugi. Hún segist oft hafa séð skógarelda en enga sem þessa. „Hvernig þeir breiddust út, hraðinn á þeim.“

Frétt BBC um málið.

Íbúar í Atalaia Fundeira reyna að hindra að eldurinn nái …
Íbúar í Atalaia Fundeira reyna að hindra að eldurinn nái að húsum þeirra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert