Báru ábyrgð á dauða 71 manns

AFP

Réttarhöld yfir ellefu mönnum hefjast í Ungverjalandi í dag en mennirnir eru sakaðir um að bera ábyrgð á dauða 71 flóttamanns í í flutn­inga­bíl á hraðbraut í Aust­ur­ríki. Fólkið hafði kafnað fljót­lega eft­ir að hafa farið inn í kæligám bíls­ins í Ung­verjalandi fyrir tæpum tveimur árum.

AFP

Fólkið, 59 karlar, átta konur og fjögur börn, fannst látið skammt frá landamærum Ungverjalands í ágúst 2015. Málið vakti mikla athygli og samúð með flóttafólki sem á fáa aðra úrkosti en að nýta sér þjónustu smyglara.

Í kjölfarið ákváðu ríki á Balkanskaganum að opna landamæri sín tímabundið og leyfa fólki sem var á flótta, einkum frá Miðausturlöndum, að komast leiðar sinnar.

Frá dómshúsinu í Kecskeme í Ungverjalandi þar sem réttarhöldin hefjast …
Frá dómshúsinu í Kecskeme í Ungverjalandi þar sem réttarhöldin hefjast í dag. AFP

Réttarhöldin fara fram í bænum Kecskemet en ungversk yfirvöld kröfðust þess að réttað yrði yfir mönnunum þar í landi þar sem fólkið lést áður en farið var yfir landamærin.

Um er að ræða Búlgara, Afgana og Líbana en þeir eru sakaðir um mansal og pyntingar. Fjórir þeirra hafa einnig verið ákærðir fyrir manndráp og eiga yfir höfði sér lífstíðardóma. Einn þeirra er Samsoor L., þrítugur Afgani, sem er talinn vera höfuðpaur smyglhringsins og bílstjóri flutningabílsins, Ivajlo S. 26 ára gamall Búlgari.

Mennirnir hafa allir setið í gæsluvarðhaldi í tæp tvö ár fyrir utan einn sem enn er leitað. Gert er ráð fyrir því að dómur verði kveðinn upp yfir mönnum fyrir árslok.

Lögregla gætir mannanna í réttarsalnum.
Lögregla gætir mannanna í réttarsalnum. AFP

Að sögn saksóknara eru mennirnir í glæpahring sem smyglaði yfir 1.200 manns inn til Vestur-Evrópu á tímabilinu febrúar til ágúst 2015. Flóttafólkið var oft flutt í loftlausum, dimmum og lokuðum gámum sem myndu aldrei teljast hæfir til fólksflutninga.

Austurrískur lögregluþjónn tók eftir flutningabílnum þar sem hann stóð út í kanti og að það læki vökvi frá bílnum. Síðar kom í ljós að vökvinn var frá rotnuðum líkamsvessum fólksins sem var um borð í bílnum. Meðal þeirra sem létust var tæplega árs gömul stúlka. Fólkið hafði verið látið í tvo sólarhringa þegar það fannst.

Mennirnir sem eru ákærðir.
Mennirnir sem eru ákærðir. AFP

Meðal gagna í málinu eru upptökur af símtölum bílstjórans og höfuðpaursins.  „Þau öskra stanslaust. Þú getur ekki ímyndað þér hvað er að gerast hérna,“ er haft eftir bílstjóranum.

Yfirmaður hans skipar honum að hunsa ópin og halda áfram akstri. „Ef þau deyja [...] hentu þeim út í skóg í Þýskalandi.“ hefur þýska blaðið SüddeutscheZeitung eftir hljóðupptöku lögreglu.

AFP

Af fórnarlömbunum hefur aðeins tekist að bera kennsl á einn þeirra en fólkið kom frá Sýrlandi, Afganistan og Írak.

AFP
AFP
Ellefu menn eru ákærðir fyrir mansal en fjórir þeirra eru …
Ellefu menn eru ákærðir fyrir mansal en fjórir þeirra eru ákærðir fyrir manndráp. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert