Bjargvættirnir fá styttri dóma

AFP

Fangelsisdómar sex bandarískra fanga verða styttir eftir að þeir björguðu fangaverði sem talinn er hafa orðið fyrir hjartaáfalli. Haft er eftir Johnny Moats, lögreglustjóra í Polk-sýslu í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum, á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að dómar fanganna yrðu styttir um fjórðung en þeir sitja allir inni fyrir minni háttar afbrot.

Fram kemur í fréttinni að fangarnir hafi verið að slá gras í kirkjugarði þegar fangavörðurinn sem gætti þeirra leið út af vegna hitans. Fangarnir notuðu síma hans til þess að hringja á lögregluna og hófu lífgunartilraunir. Haft er eftir fanganum Greg Williams að málið hafi ekki snúist um það hver væri í fangelsi og hver væri það ekki.

„Þetta snerist um mann sem þurfti aðstoð og við urðum að hjálpa honum,“ segir Williams í fréttinni. Fangarnir fjarlægðu skothelt vesti fangavarðarins og hófu lífgunartilraunir. Frekar en að taka skotvopn varðarins náðu þeir í síma hans og hringdu eftir aðstoð. Moats segir engan fanganna hafa reynt að flýja og þeir hafi gert allt rétt.

Fjölskylda fangavarðarins keypti flatbökuveislu fyrir fangana daginn eftir. Moats segir að við svona aðstæður sé ástæða til þess að stytta viðkomandi dóma. Málið varpaði einnig ljósi á góða framkomu fangavarðanna við fangana í fangelsinu. „Þeir koma fram við þá eins og fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert