Drottningin minntist ekkert á Trump

Drottningin lét það vera að nefna Trump á nafn í …
Drottningin lét það vera að nefna Trump á nafn í ræðu sinni. AFP

Elísabet Englandsdrottning minntist ekkert á heimsókn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þegar hún ávarpaði breska þingið í morgun. Vekur það upp spurningar hvort Trump muni yfir höfuð heimsækja Bretland á næstunni.

Það er viðtekin venja að drottningin telji upp næstu heimsóknir þjóðhöfðingja ríka, en eina heimsóknin sem hún minntist á var væntanleg heimsókn Spánarkonungs í júlí.

Nýlega voru voru sagðar af því fréttir að Trump vildi ekki heimsækja Bretland vegna andstöðu almennings. Hann vildi ekki heimsækja landið nema honum þætti hann velkominn, en 1,8 milljónir manna skrifuðu undir áskorun um að draga heimsóknarboð hans til baka.

Breskir fjölmiðlar vilja nú meina að heimsóknin sé í hættu. Talsmaður Theresu May forsætisráðherra fullyrðir hins vegar að drottningin hafi ekki minnst á heimsókn Trump í ræðu sinni vegna þess að dagsetningin hafi ekki verið ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert