Hver myrti Emilie Meng?

Emilie Meng var sautján ára er hún hvarf.
Emilie Meng var sautján ára er hún hvarf.

Hún fór út að skemmta sér með vinkonum sínum. Klukkan fjögur um nóttina komu þær saman á lestarstöðina í Korsør og kvöddust. Hún ætlaði að ganga ein heim. En svo hvarf hún sporlaust. Ekkert spurðist til Emilie Meng í 168 daga eða þar til lík hennar fannst illa út leikið við vatn í Borup á aðfangadag jóla.

Emilie var fædd 31. júlí árið 1998 og var því sautján ára og ellefu mánaða er hún hvarf. Lögreglan telur að hún hafi verið drepin þann dag, 10. júlí í fyrra.

Lýst var eftir Emilie mánuðum saman eða allt þar til …
Lýst var eftir Emilie mánuðum saman eða allt þar til lík hennar fannst á aðfangadag.

Morðið er enn ráðgáta en í gær dreifði lögreglan loks myndbandi af bíl sem sást aka við Korsør-lestarstöðina sömu nótt og Emilie hvarf. Langan tíma tók að greina myndbandið en sérfræðingar telja sig nú hafa komist að því að bíllinn, sem er hvítur, sé af gerðinni Hyundai i30, árgerð 2011-2016. Óskaði hún upplýsinga frá almenningi og í morgun hafði hún tekið við 75 slíkum ábendingum. Frá því að lík Emilie fannst hefur lögreglan á Suður-Sjálandi fengið yfir þúsund ábendingar.

Málið liggur þungt á Dönum

Fjöldinn sýnir að mati lögreglunnar hversu þungt hvarfið og morðið á Emilie hvílir á dönsku þjóðinni. Eftir að hún hvarf leituðu hundruð lögreglumanna sem og óbreyttir borgarar að henni vikum saman. Er lík hennar fannst tóku fleiri hundruð manns þátt í minningarathöfn um hana á Korsør-lestarstöðinni.

„Við erum ánægð að fá svona margar vísbendingar, en við eigum eftir að vinna úr þeim,“ segir Søren Ravn-Nielsen, yfirlögregluþjónninn sem farið hefur fyrir rannsókn málsins frá upphafi. Hann segir of snemmt að segja að tímamót hafi nú orðið í rannsókninni. „Um það getum við ekkert sagt að svo stöddu,“ segir Ravn-Nielsen.

Óvenjulegt mál

Á blaðamannafundinum um jólin, þar sem lögreglan greindi frá líkfundinum og stöðu rannsóknarinnar, lýsti hún málinu sem óvenjulegu. Og vissulega var málið óvenjulegt í dönsku samfélagi. Það var engu líkara en jörðin hefði gleypt stúlkuna. Ekki ein einasta haldbæra vísbending fannst um hvað orðið hefði um hana vikum og loks mánuðum saman. Ekki fyrr en líkið fannst, um hálfu ári síðar.

Hvarf Emilie stakk Dani að innstu hjartarótum. Hún var svo ung og í blóma lífsins. Slík mannshvörf eru fágæt í Danmörku og hundruð ef ekki þúsundir Dana tóku þátt í leitinni, kannski ekki síst vegna þess að Emilie var bara venjuleg, dönsk stúlka sem hafði farið út að skemmta sér eins og ungt fólk gerir gjarnan.

Á aðfangadag, þegar Danir voru að undirbúa jólahátíðina, gekk maður sem var að viðra hundinn sinn fram á lík í stöðuvatni í Regnemaks Bakke í Borup á Sjálandi, meira en sextíu kílómetrum frá þeim stað sem hún sást síðast á lífi.

Síðast sást til Emilie Meng á lestarstöðinni í Korsør á …
Síðast sást til Emilie Meng á lestarstöðinni í Korsør á Sjálandi. Lík hennar fannst hálfu ári síðar við vatn í Borup, um sextíu kílómetrum frá þeim stað sem hún sást síðast.

Ljóst var að líkið hafði legið lengi í vatninu.

Áður en líkið fannst höfðu Danir velt upp ýmsum kenningum um hvað gæti hafa komið fyrir. Lét Emilie sig einfaldlega hverfa? Lenti hún í slysi? Eða var glæpur framinn?

Og það var það síðastnefnda sem þeir óttuðust mest en var engu að síður staðreynd. Emilie hafði verið drepin.

Besta vinkona hennar, Sarah Midling Hansen, sagðist hafa haldið í vonina allan tímann. Að Emilie væri á lífi. Hefði viljað hefja nýtt líf, í burtu frá smávægilegum og hefðbundnum unglingavandamálum sem hún glímdi við en stúlkan var í ástarsorg. Það varð til þess að í fyrstu var sú kenning að hún hefði sjálfviljug látið sig hverfa, fyrirferðamikil.

Stóra spurningin sem eftir stendur er þessi: Hver drap Emilie Meng?

Kurt Kragh, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, sagði við Berlinske á sínum tíma að kringumstæður þessa örlagaríku nótt hefðu skapað morðingjanum færi á að fremja hinn fullkomna glæp, glæp sem hann gæti jafnvel komist upp með.

Fór ekki inn í leigubílinn

Emilie hafði verið að skemmta sér með vinkonum sínum í nágrannabænum Slagelse um kvöldið. Vinkvennahópurinn kom með lest á Korsør-stöðina kl. 3.53 um nóttina. Stúlkurnar fóru allar út á bílaplanið fyrir utan þar sem leigubíll beið þeirra. En Emilie fór aldrei inn í hann. Hún ákvað að ganga heim þar sem hún bjó í aðeins um nokkurra kílómetra fjarlægð frá lestarstöðinni.

Hún sagðist vilja fá sér frískt loft og hlusta á tónlist í gönguferðinni heim.

Á þessum tíma var enginn á ferli. Enginn vitni voru til staðar.

Emilie Meng á lestarstöðinni í Korsør nóttina sem hún hvarf.
Emilie Meng á lestarstöðinni í Korsør nóttina sem hún hvarf. Skjáskot úr eftirlitsmyndavél

Emilie söng í kirkjukórnum og þegar hún mætti ekki til kirkju klukkan 9.30 morguninn eftir eins og ráð hafði verið fyrir gert var hvarf hennar tilkynnt.

Þegar lögreglan fór að skoða málið blasti eyðimörk við: Hún var á bílastæðinu með vinkonunum. En hvert fór hún? Hvað gerðist? Hvað varð eiginlega um hana?

Lögreglan fékk nokkrar ábendingar og yfirheyrði að minnsta kosti þrjá menn, m.a. 33 ára vörubílstjóra og 67 ára gamlan karlmann sem gerð var húsleit hjá nokkrum sinnum. En fljótlega var ljóst að þeir voru ekki hinir seku.

Um tíma fóru af stað sögusagnir um að Emilie hefði farið inn á Facebook-síðu sína nokkrum dögum eftir að hún hvarf. Sú saga gaf kenningum um að hún hefði stungið af byr undir báða vængi. Lögreglan staðfesti síðar að þetta væri rangt.

Morðinginn þekkti Emilie ekki

Ove Dahl, fyrrverandi yfirmaður morðdeildar lögreglunnar í Kaupmannahöfn, sagðist eftir líkfundinn telja að morðinginn hefði ekki þekkt Emilie. Slík mál væri erfiðast að upplýsa. Hann sagðist sjálfur hafa rannsakað mannshvarf á sínum tíma þar sem líkið fannst ekki fyrr en sjö árum seinna. Morðinginn væri enn ófundinn.

Dahl sagði það líklega tilviljun að morðinginn losaði sig við líkið við vatnið í Borup. Það væri til marks um að hann hefði ekki skipulagt drápið.

Langan tíma tók að greina myndbandið af bílnum við Korsør-lestarstöðina. Bílinn má rétt greina handan glerhurðar á stöðinni. Enn sem komið getur lögreglan ekki fullyrt að í þessum hvíta bíl sé morðingi Emilie. En í augnablikinu er þetta þó helsta vísbendingin sem hún hefur í höndunum við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert