Misheppnað faðmlag varð Twitter-grín

Ivanka Trump var ekki alveg tilbúin í innilegt faðmlag þingmannsins.
Ivanka Trump var ekki alveg tilbúin í innilegt faðmlag þingmannsins. Ljósmynd/Twitter

Marco Rubio, þingmaður Repúblikana, lenti í frekar vandræðalegu atviki á dögunum þegar hann reyndi að faðma Ivönku Trump, dóttur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Þingmaðurinn átti fund með dóttur forsetans og ætlaði sér að heilsa henni með því að gefa henni vinalegt faðmlag. Trump virtist hins vegar ekki spennt fyrir slíkum atlotum. Þau komu henni að minnsta kosti á óvart.

Mynd náðist af hinni vandræðalegu tilraun Rubio til faðmlags og var hún birt á Twitter, þar sem hún vakti eðlilega mikla kátínu. Þingmaðurinn og forsetadóttirinn höfðu sem betur fer húmor fyrir vandræðalegheitunum og tóku þátt í internetgríninu.

Það liðu aðeins nokkrir klukkutímar frá því að myndin var fyrst birt þangað til Rubio brást við gríninu, sem var að sjálfsögðu á hans kostnað. Hann birti meðal annars fleiri myndir sem sýndu annað sjónarhorn hins meinta faðmlags og bað tístara um að hjálpa sér við að komast til niðurstöðu í málinu, hvort um faðmlag hefði verið að ræða eða ekki. Að lokum greindi hann frá því að rannsókninni væri lokið og niðurstaðan væri sú að ekkert faðmlag hefði átt sér stað.

Ivanka Trump brást svo gríninu með því að segjast ekki ætla að tjá sig um meint misheppnað faðmlag. Hún hefði hins vegar alveg viljað faðma hann. Skömmu síðar tísti hún á nýjan leik. Sagði fréttir af málinu hafa verið falsaðar. Faðmlag hefði átt sér stað og það hefði verið mjög ánægjulegt.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert