Sjóðandi hiti frá Síberíu til London

Gestir W-hótelsins í Amsterdam kæla sig í hitanum í sundlauginni …
Gestir W-hótelsins í Amsterdam kæla sig í hitanum í sundlauginni á þaki byggingarinnar. AFP

Hitabylgja gengur nú yfir Evrópu. Júnímánuður verður að öllum líkindum sá heitasti í London frá árinu 1976. Óvenjuhár hitinn hefur sett strik í reikning Portúgala sem berjast enn við skógarelda í landinu.

Yfir þúsund slökkviliðsmenn eru enn að störfum í miðhluta Portúgals en eldurinn kviknaði er eldingu sló niður í úrkomulausu þrumuveðri á laugardag. Að minnsta kosti 64 hafa látist.

Skógareldar kviknuðu einnig á tveimur stöðum við Adríahafið í Króatíu. Flytja þurfti 800 ferðamenn af svæðinu í öruggt skjól. Tekist hefur að slökkva eldana. 

„Við vorum hrædd, það er staðreynd,“ segir sænskur ferðamaður í samtali viðAFP-fréttastofuna. „Við gátum séð eldana frá hótelherberginu okkar og það var engu líkara en þeir væru rétt fyrir utan gluggann.“

Kona í Frakklandi svalar þorstanum í hitabylgjunni.
Kona í Frakklandi svalar þorstanum í hitabylgjunni. AFP

Í dag eru sumarsólstöður og á meðan Evrópubúar fagna þessum lengsta degi ársins hefur hitastigið farið um og yfir 35°C víða, m.a. á Ítalíu, í Austurríki, Hollandi og Sviss.

Slökkviliðsmenn eru í viðbragðsstöðu í Austurríki en hefð er fyrir því að fólk kveiki varðelda til að fagna sumarsólstöðum. Yfirvöld á sumum svæðum í landinu hafa lagt blátt bann við því að fólk grilli í almenningsgörðum, sem einnig er rík hefð fyrir, til að lágmarka hættu á gróðureldum.

Á Ítalíu eiga veðurfræðingar von á því að hitabylgjan nú verði sú mesta í landinu í fimmtán ár en hitastigið er víða um átta gráðum hærra en að meðaltali á þessum árstíma. Hitinn hefur farið upp í 39°C í Mílanó og í 30°C í ítölsku Ölpunum sem eru í yfir þúsund metra hæð.

Í rannsókn sem birt var á mánudag var varað við því að hitabylgjur verði algengari í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga. 

Bretar mega eiga von á því að hitabylgjan þar í landi vari í að minnsta kosti fimm daga. Reiknað er með að hitastigið fari yfir 30°C víða. Í Vestur-London er búist við því að hitinn verði 34°C í dag.

Drengur gengur undir gosbrunn í Barcelona á Spáni. Búist er …
Drengur gengur undir gosbrunn í Barcelona á Spáni. Búist er við að hitinn fari í yfir 40 gráður á Spáni í dag. AFP

 Malbik bráðnaði í hitanum í Guildford, suðvestur af höfuðborginni. Hin konunglega kappreið, Ascot, fer fram um helgina og segjast aðstandendur hennar íhuga að slaka á kröfum um klæðaburð í fyrsta skipti svo gestir geti verið léttklæddari.

Líkur eru á því að þrumuveður muni setja strik í reikninginn á Glastonbury-tónlistarhátíðinni. Þá gæti tjaldstæðið, þar sem um 200 þúsund gestir eru nú að byrja að stinga niður tjaldhælum, breytast í drullusvað.

Parísarbúar búa sig einnig undir sjóðheitan dag. Von er á 37 stiga hita í Centre-Val de Loire sem er suður af höfuðborginni. Mengun verður mikil í París á heitum dögum og því hefur lögreglan beint vörubílum frá miðborginni og lækkað hámarkshraða á ákveðnum svæðum.

Hitabylgjan nær allt til Síberíu í Rússlandi. Þar hefur hitinn farið upp í 37 stig í borginni Krasnoyarsk.

Hins vegar er aðeins 1 stigs hiti í Murmansk og snjókoma. Það er óvenju kalt á þessum árstíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert