Stórleikarinn sem hatar sviðsljósið

Daniel Day Lewis í hlutverki sínu í kvikmyndinni The last …
Daniel Day Lewis í hlutverki sínu í kvikmyndinni The last of the Mohicans.

„Hann mun ekki starfa lengur sem leikari,“ stóð í yfirlýsingu sem talsmaður Daniel Day-Lewis sendi frá sér í gær. Ótal spurningar vöknuðu hjá aðdáendum hans. En þeim verður ekki svarað, að minnsta kosti ekki af hans hálfu eða aðstandenda hans. „Ákvörðunin er persónuleg og hvorki hann né fulltrúar hans munu ræða málið frekar,“ sagði ennfremur í yfirlýsingunni.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hinn margverðlaunaði leikari lætur sig hverfa úr sviðsljósinu. Og þótt hann hafi lengi verið undir því starfs síns vegna hefur honum verið meinilla við það. Fjölskyldu hans hefur til dæmis alla tíð verið stranglega bannað að tjá sig við fjölmiðla. Hálfbróðir hans gerði það eitt sinn í þeirri trú að hann væri að forða ævisagnaritara frá skáldskap um hinn fræga bróður sinn. Day-Lewis er sagður hafa hellt sér yfir hann og hætt alfarið að tala við hann í kjölfarið.

Leikaranum hefur augljóslega alltaf verið mjög annt um að vernda einkalíf sitt.

Þegar tökum á kvikmyndinni The Boxer lauk árið 1997 hætti Day-Lewis að leika um hríð. Hann flutti til Flórens á Ítalíu í nokkur ár og lærði og vann við að smíða skó. Líf hans í felum á Ítalíu hefði getað varað lengur ef leikstjórinn Martin Scorsese hefði ekki boðið honum hlutverk í kvikmyndinni Gangs of New York sem tekin var upp árið 2002.

Daniel Day-Lewis er eini leikarinn sem hefur þrisvar sinnum fengið …
Daniel Day-Lewis er eini leikarinn sem hefur þrisvar sinnum fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki. AFP/Samsett

Daniel Day-Lewis er fæddur 29. apríl árið 1957 og varð því sextugur á þessu ári. Hann fæddist í Greenwich á Englandi. Foreldrar hans eru ljóðskáldið Cecil Day-Lewis og leikkonan Jill Balcon. Eiginkona hans er Rebecca Miller, leikkona, rithöfundur og dóttir leikskáldsins Arthurs Miller. Saman eiga þau tvö börn.

Á árunum 1989 til 1994 átti Day-Lewis í stormasömu ástarsambandi við frönsku leikkonuna Isabelle Adjani. Þau eignuðust einn son.

Day-Lewis hefur verið sérvitur og jafnframt vandvirkur þegar kemur að því að velja hlutverk. Hann er eini leikari sögunnar sem unnið hefur til þrennra Óskarsverðlauna fyrir besta leik í aðalhlutverki. Myndirnar þrjár eru: My Left Foot (1989), There Will be Blood (2008) og Lincoln (2013).

Hann var einnig tilnefndur til verðlaunanna fyrir hlutverk sín í myndunum Gangs of New York og In the Name of the Father.

Enn á eftir að frumsýna eina mynd sem hann fer með hlutverk í; Phantom Thread sem væntanleg er í kvikmyndahús í desember. Í henni leikur Day-Lewis tískuhönnuð í London á sjötta áratugnum. Leikstjórinn er Paul Thomas Anderson , sá hinn sami og leikstýrði honum í There Will Be Blood.

Fyrsta mynd hans var Sunday Bloody Sunday sem frumsýnd var árið 1971. Þá var hann aðeins unglingur. Hann sneri sér síðan að leiksviðinu og sást ekki aftur á hvíta tjaldinu fyrr en rúmum áratug síðar.

Sviðsframkoma hans þykir einstök og persónutöfrar hans miklir. Hann skar sig fljótt úr fjöldanum og naut vinsælda bæði meðal gagnrýnenda og áhorfenda. Hann var valinn mesti leikari heims af Time árið 2012 og í júní 2014 var hann sæmdur riddaratign í Buckingham-höll fyrir framlag sitt til leiklistarinnar.

Í hlutverki sínu í kvikmyndinni Lincoln sem frumsýnd var árið …
Í hlutverki sínu í kvikmyndinni Lincoln sem frumsýnd var árið 2013.

Hann er sagður hafa lifað sig svo inn í hlutverk sín að meðan á tökum mynda hans stóð hélt hann sig í karakter allan tímann, jafnvel þegar slökkt hafði verið á myndavélunum. Það var m.a. tilfellið við tökur kvikmyndarinnar Gangs of New York. Hann talaði allan tímann með New York-hreim persónu sinnar og sást brýna hnífa í hádegishléum. Þá segir sagan að hann hafi hlustað á tónlist rapparans Eminem til að komast í rétta (vonda) skapið fyrir hlutverkið.

Verðlaunamyndir Day-Lewis eru þó langt frá því þær einu sem snert hafa við fólki og eru í uppáhaldi margra. Má þar nefna My Beautiful Laundrette (1985), A Room With a View (1985), The Unbearable Lightness of Being (1988) og The Last of the Mohicans (1992).

En leikarinn hafði þó engan áhuga á að vera í sviðsljósinu sem fylgdi frægðinni. Allan hans feril var hann sjaldséður gestur á samkomum frægra eða í viðtölum. Hann naut þess frekar að halda til í óbyggðum Írlands og læra að lifa á náttúrunni.

Enn á eftir að frumsýna eina kvikmynd Daniels Day-Lewis, Phantom …
Enn á eftir að frumsýna eina kvikmynd Daniels Day-Lewis, Phantom Thread.

Slík hlé frá mannheimum og sviðsljósinu hafa hentað honum vel. Í einu slíku hléi, þá að nema skósmíði í Flórens, var hann eins og fyrr segir lokkaður aftur að kvikmyndatökuvélunum er honum bauðst að leika í Gangs of New York.

„Ég var ánægður að vera kominn út úr kvikmyndaheiminum,“ sagði hann á þeim tíma. „Ég var hamingjusamur að gera allt aðra hluti.“

Hann hefur áður ýjað að því að hann ætlaði sér ekki stunda leiklist allt sitt líf. Í viðtali árið 2005 sagði hann: „Í lífi hvers leikara kemur augnablik þar sem hann spyr sig hvort það sé í raun þess virði að vera enn að gera þetta?“

Brot af því besta frá ferli hans má sjá í myndskeiðinu hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert