Baráttunni um Mosúl að ljúka?

Hadba-bænaturninn og Nouri-moskan í gamla bænum í Mosúl.
Hadba-bænaturninn og Nouri-moskan í gamla bænum í Mosúl. AFP

Vígasveitir Ríkis íslams sprengdu í gær upp mosku og bænaturn í Mosúl í Írak þar sem leiðtogi samtakanna, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsti yfir kalífadæmi árið 2014. Er þetta í eina skiptið sem Baghdadi kom fram opinberlega, að sögn yfirvalda í Írak. Þykir þetta til marks um að Ríki íslams hafi játað sig sigrað í baráttunni um borgina.

AFP

Samtökin birtu yfirlýsingu í gegnum Amaq-áróðursskrifstofu sína þar sem fram kom að Bandaríkjaher hafi sprengt moskuna upp en her Bandaríkjanna og bandamanna hefur fordæmt eyðinguna og segja hana glæp gegn íbúum Mosúl og öllum Írökum.

Forsætisráðherra Írak, Haider al-Abadi, segir að með því að jafna moskuna við jörðu séu samtökin að játa sig sigruð eftir átta mánaða baráttu um borgina.

Bænaturninn sem var – Habda.
Bænaturninn sem var – Habda. AFP

Hershöfðingi Írakshers sem stýrir aðgerðum gegn Ríki íslams í Mosúl segir að þegar her bandamanna hafi verið í um það bil 50 metra fjarlægð frá Nuri-moskunni hafi Ríki íslams framið enn einn glæp gegn sögunni með því að sprengja moskuna upp sem og Hadba-bænaturninn. Um er að ræða tvö af helstu kennileitum Mosúl en í fjóra daga hefur Íraksher með stuðningi Bandaríkjahers og bandamanna sótt hart að vígasveitunum í elsta hluta borgarinnar.

Al-Hadba-bænaturninn er við hlið Nuri-moskunnar og var oft líkt við skakka turninn í Písa. Lokið var við byggingu Hadba árið 1172 og þótti byggingin einstaklega formfögur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert