Hafa loks náð tökum á eldunum

Enn loga eldar en þó hefur náðst að hemja útbreiðsluna …
Enn loga eldar en þó hefur náðst að hemja útbreiðsluna og slökkva þá á flestum stöðum. AFP

Slökkviliðsmenn hafa náð tökum á skógareldunum í Portúgal að mestu. Að minnsta kosti 64 hafa látist frá því að eldarnir kviknuðu í miðhluta landsins um helgina.

Eldarnir kviknuðu fyrst í Pedrogao Grande en breiddust hratt út, m.a. til Gois, Pampilhosa da Serra og Arganil.

Í Pedrogao Grande brunnu eldarnir á um 30 þúsund hektara landssvæði, aðallega í skóglendi. Slökkvistarfið hefur gengið hægt þar sem miklir þurrkar eru á svæðinu og hitabylgja í þokkabót. Þá hefur vindur sett sitt strik í reikninginn.

Í gærkvöldi breyttist veðrið til hins betra. Mikill raki myndaðist í loftinu og þá náðu slökkviliðsmenn að hefta útbreiðslu eldanna og slökkva í þeim á stórum svæðum. 

Þúsundir hektara brunnu

Í Gois brunnu 20 þúsund hektarar lands. Um 2.400 slökkviliðsmenn hafa tekið þátt í slökkvi- og björgunarstarfi en margir íbúar urðu innlyksa í þorpum sínum er eldarnir kviknuðu á laugardag. Portúgalar hafa notið liðsinnis Spánverja, Frakka og Ítala við slökkvistarfið.

Hitabylgjan hefur varað í nokkra daga en nú er búist við því að hún sé að fjara út, í bili að minnsta kosti, og að hitinn taki aftur að lækka. Síðustu daga hefur hitinn farið upp í 40 gráður. 

Talið er að 204 hafi slasast í eldunum og í gær fóru fyrstu jarðarfarir fórnarlambanna fram.

Gagnrýnt hefur verið í fréttum í Portúgal að viðbragðsáætlunum hafi verið ábótavant. Þær hafi átt að uppfæra fyrir fjórum árum. Slíkt hafi ekki verið gert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert