Myrti eiginkonu sína og son

Kirkenes í Noregi.
Kirkenes í Noregi. Wikipedia/Harvey Barrison

Tæplega sextugur Norðmaður var í dag dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir morð á eiginkonu sinni og syni hennar. Maðurinn skaut mæðginin til bana aðfaranótt 29. ágúst á heimili þeirra í Kirkenes, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins. Maðurinn áfrýjaði dómnum strax eftir dómsuppkvaðninguna í morgun.

Að sögn mannsins sótti hann haglabyssuna niður í kjallara og ætlaði að hræða konu sína með byssunni en hún ætlaði að yfirgefa hann. Hann gat hins vegar ekki útskýrt fyrir rétti hvers vegna hann hlóð byssuna með fimm skotum og notaði þrjú þeirra. Tvö þeirra á mæðginin, Pimsiri Songngam 37 ára og Petchngam, sem var tólf ára þegar hann lést, en það þriðja á eigið höfuð. Hann lifði hins vegar af en á erfitt með að kyngja og tala.

Að sögn saksóknara voru morðin framin að yfirlögðu ráði og ekki hægt að tala um stundarbrjálæði. Eftir að maðurinn sótti haglabyssuna niður í kjallara fór hann út að reykja. Hann fór síðan inn og skaut mæðginin þar sem þau voru í fastasvefni. Kona hans lést samstundis en ekki drengurinn sem náði að hringja í lögreglu og láta vita. Hann var enn á lífi þegar lögreglan kom á vettvang.

Frétt NRK í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert