Þagði í beinni í fjórar mínútur

Huw Edwards sat þögull í fréttasettinu í fjórar mínútur.
Huw Edwards sat þögull í fréttasettinu í fjórar mínútur.

Fréttaþulur BBC birtist á sjónvarpsskjánum í fréttum kl. 22 í fyrrakvöld og þagði í heilar fjórar mínútur. Á meðan mátti sjá fréttastef BBC renna nokkrum sinnum yfir skjáinn.

Mörgum áhorfendum brá við þar sem þulurinn Huw Edwards sat ábúðarfullur í „settinu“, horfði niður í borðið og mælti ekki orð frá vörum.

Notendur Twitter voru fljótir að vekja athygli á þessu og veltu fyrir sér hvort þetta væri ekki einmitt fréttatíminn sem Bretar þyrftu eftir fréttir af voðaverkum, þingkosningum og mannskæðum eldsvoðum síðustu daga og vikur.

Í ljós kom hins vegar að bilun hafði átt sér stað í tölvukerfum sem olli því að ekkert heyrðist í þulnum. Hann hélt þó andlitinu, ef svo má segja, og lét þessar fjórar óþægilegu mínútur ekki á sig fá.

Huw svaraði svo fyrir sig á Twitter með því að skrifa: „Samt betri en ITV“ en ITV er einn helsti keppinautur BBC í Bretlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert