Vill ræða réttindi borgaranna

Theresa May mætir til fundar í Brussel í dag.
Theresa May mætir til fundar í Brussel í dag. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun á fundi í Brussel kynna aðgerðir sem eiga að vernda réttindi íbúa Evrópusambandsins sem búsettir verða í landinu eftir að útganga þess úr ESB verður að fullu að veruleika.

„Það sem ég mun kynna í dag með skýrum hætti er hvernig Bretland leggur til að réttindi íbúa innan ESB sem búa í Bretlandi, verða vernduð og sjá hvernig réttindi breskra ríkisborgara sem búa í Evrópu verða vernduð,“ sagði May er hún mætti til fundar við leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í Brussel í dag. 

„Þetta hefur verið mikilvægt málefni, við höfum viljað ræða þetta snemma í samningaviðræðunum. Svo verður nú þegar vinnan er að hefjast.“

Leiðtogar hinna ESB-landanna hafa hins vegar beðið May um að setja málið ekki á dagskrá. Það eigi fremur heima í viðræðum embættismanna ESB og samningamanna Breta heldur en hjá leiðtogum landanna.

Um þrjár milljónir íbúa landa ESB búa í Bretlandi og um ein milljón Breta býr utan heimalandsins og í öðru ESB-landi.

May hafði áður neitað að ábyrgjast að réttindi borgara ESB yrðu tryggð í Bretlandi fyrr en að réttindi hennar borgara yrðu tryggð innan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert