App sem lokar netsambandi á ferð

Hollenska símafyrirtækið KPN er að ljúka við hönnun appsins.
Hollenska símafyrirtækið KPN er að ljúka við hönnun appsins. AFP

Hjólreiðar hafa lengi verið gríðarlega vinsælar í Hollandi en vegna fjölgunar slysa á ungum hjólreiðamönnum ætlar helsta símafyrirtækið að þróa app sem kemur í veg fyrir að börn og unglingar geti sent skilaboð úr símum sínum á meðan þeir hjóla.

App KPN-símafyrirtækisins mun loka fyrir net- og símasamband á meðan eigandi símans hjólar. 

Vonast er til þess að börn og unglingar, eða foreldrar þeirra, sæki appið en tilgangur er að fækka slysum. Að skrifa skilaboð á símann og hjóla fer einfaldlega ekki saman að sögn talsmanns símafyrirtækisins.

Flest hollensk börn hjóla úr og í skóla dag hvern. Góðir hjólastígar eru víða. Árið 2015 mátti rekja eitt af hverjum fimm hjólreiðaslysum sem ungt fólk lenti í til notkunar snjallsíma undir stýri. Tólf ungmenni létust í þessum slysum það ár og 441 slasaðist.

Vissulega er hættulegt að skrifa skilaboð á meðan hjólað er en rannsóknir sína að börnin og ungmennin geta einnig truflast við hjólreiðarnar er sími þeirra hringir, titrar eða gefur frá sér önnur merki. 

Appið á að nema hvenær eigandi símans er að hjóla og þá lokast fyrir net- og símasamband, nema í neyðarnúmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert