Fimm blokkir rýmdar í London

Ein íbúðablokkanna sem unnið er að því að rýma.
Ein íbúðablokkanna sem unnið er að því að rýma. AFP

Hafist hefur verið handa við að rýma fimm íbúðablokkir í Camden í norðurhluta London, höfuðborgar Bretlands, þar sem þær eru klæddar með hliðstæðum hætti og Grenfell-turninn sem varð eldsvoða að bráð fyrr í þessum mánuði með þeim afleiðingum að tugir létu lífið. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að 800 íbúðir séu í blokkunum fimm.

Fram kemur í fréttinni að ástæðan sé sú að óttast sé um öryggi íbúanna í ljósi örlaga Grenfell-turnsins. Klæðningin verður fjarlægð af byggingunum. Fyrst var ákveðið að rýma eina af íbúðablokknum en síðan var tekin ákvörðun um að þær yrðu fimm. Haft er eftir talsmanni bæjarráðs Camden, Georgia Gould, að fundað hafi verið með íbúunum í gær.

Gould segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir úttekt slökkviliðsins. Íbúarnir verði fluttir í tímabundið húsnæði á meðan unnið er að lagfæringum á íbúðaflokkunum fimm. Reiknað sé með að vinnan taki 3-4 vikur. Eldsvoðinn í Grenfell-turninum hafi breytt öllu og bæjarráðið vilji ekki taka neina áhættu í þessum efnum. Öryggi íbúanna væri í algerum forgrunni.

Til stendur að fjarlægja klæðninguna af fleiri íbúðablokkum í London, allavega tólf, samkvæmt fréttum BBC en slík klæðning hefur verið notuð á miklu fleiri byggingar í Bretlandi. Ekki mun þó hafa verið tekin ákvörðun um að rýma aðrar íbúðablokkir enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert