Lætur Trump Mueller fjúka?

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir efasemdum sínum um hlutlægni Roberts Mueller, sérastaks saksóknara vegna meintra afskipta rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári, í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox í dag.

Fjallað er um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC þar sem segir að Trump hafi vísað til vinskapar Muellers við James Comey sem forsetinn rak úr stöðu forstjóra alríkislögreglunnar FBI fyrr á þessu ári en talið er að ástæða þess sé rannsókn FBI á málinu.

Spurður hvort Mueller ætti að láta af embætti sagði Trump að það yrði að koma í ljós. Forsetinn sagði hins vegar að Mueller væri heiðvirður maður. Mueller var skipaður í embætti í kjölfar þess að Comey var rekinn til þess að rannsaka meint afskipti Rússa.

Mueller hefur ekki veitt neinar upplýsingar um rannsókn sína en bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að hún snúi meðal annars að því hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. Bæði með því að reka Comey og reyna að stöðva rannsóknina á afskiptum Rússa.

Trump hefur ítrekað neitað tengslum við rússnesk stjórnvöld og sagt rannsóknir í þeim efnum nornaveiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert