Mótherji Pútíns dæmdur úr leik

Alexei Navalny reynir að koma í veg fyrir fjórða kjörtímabil …
Alexei Navalny reynir að koma í veg fyrir fjórða kjörtímabil Vladimirs Pútíns. AFP

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, Alexei Navalny, er ekki gjaldgengur til að gegna forsetaembættinu að mati rússneska kosningaráðsins. Hann hafði þegar hafið undirbúning eftir að hafa tilkynnt forsetaframboð sitt í desember. 

„Eins og stendur er Alexei Navalny ekki gjaldgengur til að gegna opinberu embætti,“ segir í tilkynningu frá kosningaráðinu. Bent er á að hann afpláni enn fimm ára skilorðsbundinn dóm sem hann hlaut fyrir fjársvik sem er talinn alvarlegur glæpur. 

Þeir sem eru dæmdir fyrir alvarlegan glæp geta ekki gegnt opinberu embætti í 10 ár eftir að afplánun lýkur, stóð í tilkynningunni. Formaður kosningaráðsins sagði við fjölmiðla fyrr í mánuðinum að það þyrfti „lagalegt kraftaverk“ til þess að Navalny fengi að bjóða sig fram.

Kosningastjóri Navalny í Moskvu segir hins vegar að stjórnarskráin meini ekki Navalny að taka þátt í kosningunum, kosningaráðið sé einfaldlega að reyna að draga úr skriðþunga herferðarinnar. „Samkvæmt stjórnarskránni er hverjum ríkisborgara sem ekki er í fangelsi heimilt að gegna opinberu embætti,“ sagði kosningastjórinn Nikolai Lyaskin. 

Búist er við að sitjandi forseti Vladimir Pútín sækist eftir fjórða kjörtímabilinu í kosningunum í mars á næsta ári en hann hefur ekkert gefið út enn. Tilnefningar forsetaframbjóðenda hefjast í desember. 

Navalny og fyrrverandi viðskiptafélagi hans voru dæmdir fyrir fjársvik árið 2013 og hlaut hann fimm ára fangelsisdóm sem var fljótlega mildaður í skilorðsbundinn dóm. Stuðningsmenn Navalny sögðu pólitískar ástæður liggja að baki dómnum. Mannréttingadómstóll Evrópu úrskurðaði að mennirnir tveir hefðu ekki fengið sanngjarna málsmeðferð en eftir að málið var tekið upp að nýju í ár komust rússneskir dómstólar að sömu niðurstöðu og áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert