Nú máttu taka pestó með þér í flug

Pestó þykir einstaklega ljúffengt, ofan á brauð, út á pasta, …
Pestó þykir einstaklega ljúffengt, ofan á brauð, út á pasta, eða bara eintómt. Mynd/Wikipedia

Farþegar sem fara í gegnum ítalska flugvölinn Genoa's Cristoforo Colombo mega nú taka með sér stórar krukkur af pestó í handfarangri, eða allt upp 500 grömm. Frá því að öryggisreglur voru hertar á alþjóðaflugvöllum vegna hryðjuverkaógnar, hefur aðeins verið leyfilegt að ferðast 100 millilítra í vökvaformi í handfarangri.

Reglunum var breytt á áðurnefndum flugvelli vegna þess mikla fjölda pestókrukka sem var gerður upptækur á degi hverjum. Breytingarnar ná aðeins yfir pesto og því má annar farangur í vökvaformi aðeins vera 100 millilítrar í einingu.

Það eina sem farþegar þurfa að gera til að fá að fara með stórar krukkur af pestó í gegnum öryggishliðið er að gefa hálfa evru í sjóð „Flying Angels“ sem aðstoðar börn við að leita sér lækninga erlendis. Þá mega farþegar aðeins vera að ferðast beint frá Genóva og pestóið verður að sjálfsögðu að vera þaðan.

Breytingarnar hafa lagst mjög vel í ferðamenn sem leggja leið sína til Genóva, en ekki síður heimamenn sem fagna því að geta tekið nóg af alvöru pestói með sér í fríið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert