Prinsessur dæmdar fyrir mansal

AFP

Átta prinsessur frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa verið dæmdar fyrir mansal og ómannúðlega meðferð gagnvart þjónustufólki sínu fyrir dómi í Brussel. Prinsessurnar hljóta 15 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og ber að greiða hverjum brotaþola 165.000 evrur, eða sem nemur rúmum 19 milljónum króna, en greiðslum helmings fjárhæðanna verður frestað.

Eru þær fundnar sekar um að hafa haldið í ánauð yfir 20 einstaklingum, sem störfuðu sem þjónustufólk fyrir prinsessurnar árið 2008 þegar fólkið fór með þeim í heimsókn til Brussel. Prinsessurnar voru sýknaðar af öðrum ákæruliðum um alvarlegri brot ómannúðlegrar meðferðar en þær neituðu allri sök.

Lögfræðingur þeirra, Stephen Monod, sagðist vera ánægður yfir því að belgískt réttarkerfi hafi farið vandlega yfir gögn málsins sem mikill misskilningur hafi ríkt um í næstum 10 ár. Kveðst hann þó ekki geta staðfest hvort skjólstæðingar hans muni greiða sektirnar þar sem ekki hafi verið tekin ákvörðun um áfrýjun dómsins.

Neydd til að sofa á gólfinu og borða matarleifar

Prinsessurnar, Sheikha Hamda al-Nahyan og dætur hennar sjö, mættu ekki fyrir rétt og þykir afar ólíklegt að Sameinuðu arabísku furstadæmin muni framselja þær til fangelsisvistar í Belgíu.

Upp komst um málið þegar einn þjónanna flúði af hótelinu þar sem prinsessurnar dvöldu en þar höfðu þær leigt heila hæð af lúxussvítum.

Þjónustufólkið kvaðst hafa verið neytt til að vera til taks allan sólarhringinn, hafi mátt sofa á gólfinu og fékk ekki einn dag í frí. Auk þess hafi þeim verið bannað að yfirgefa hótelið og voru neydd til að borða matarleifar af diskum prinsessanna.

Málið hefur staðið yfir í níu ár en þessi langi tími er að hluta til rakinn til lagalegra vandamála í ferlinu af hálfu ákærðu.

Frétt BBC

Dómur var kveðinn upp yfir prinsessunum í Brussel, níu árum …
Dómur var kveðinn upp yfir prinsessunum í Brussel, níu árum eftir að brotin áttu sér stað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert