Skaut unglingspilt í stað hunds

Hundurinn réðst á lögregumanninn, sem skaut á hann í kjölfarið.
Hundurinn réðst á lögregumanninn, sem skaut á hann í kjölfarið. Mynd/Wikipedia

Lögreglumaður í Los Angeles skaut 17 ára unglingspilt til bana fyrir slysni þegar hann skaut á hund. Kúlan virðist hafa endurkastast af gangstéttinni og lent í bringu drengsins, sem lést.

Hundurinn hafði skömmu áður ráðist á lögreglumann og bitið hann í hnéð, en tveir lögreglumenn skutu í kjölfarið á hann. Pilturinn sem lést hafði skömmu áður náð að fanga hundinn, en hann slapp frá honum. Lögreglumaðurinn fékk einnig í sig kúlubrot þegar kúlan endurkastaðist af stéttinni.

Lögreglustjórinn, Christopher Bergner, sagði á blaðamannafundi að um einstaklega óheppilegt atvik hafi verið að ræða og harmar andláts piltisins, Armando Garcia-Muro. Hann sagði lögreglumennina ekki hafa orðið vara við hann þar sem hann kom hlaupandi á eftir hundinum fyrir horn á húsi á sama tíma og skotið reið af.

Lögregla hafði verið kölluð til vegna hávaða frá partíi, aðfaranótt fimmtudags. Þegar hundurinn réðst á lögreglumann var kallað eftir liðsstyrk og sjúkrabíl, en hundurinn gerði atlögu á ný og þá skutu lögreglumennirnir á hann.

Þegar þeir ætluðu að athuga hvort hundurinn hefði ekki hopað komu þeir auga á piltinn þar sem hann lá í sárum sínum. Hann var fluttur í skyndi á sjúkrahús þar sem hann lést. Hundurinn, sem var af gerðinni pit bull, lifði af skotárásina, en hefur nú verið svæfður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert