Tugir látnir í árásum í Pakistan

AFP

Rúmlega 50 manns létu lífið í dag og að minnsta kosti 170 særðust í árásum sem gerðar voru í þremur borgum Pakistans síðasta dag Ramadan-hátíðar múslima. Óttast er að tala látinna og særðra eigi eftir að hækka samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að þar af hafi 37 manns látið lífið í tveimur sprengingum á markaði í borginni Parachinar og 150 særst. Fjöldi fólks var á markaðinum þegar fyrri sprengingin varð. Þegar fólk hafi komið öðrum til hjálpar hafi önnur sprenging átt sér stað. Embættismenn segja að báðar sprengingarnar hafi verið af völdum sjálfsmorðsárásarmanna.

Þá réðust byssumenn á vélhjólum á lögreglumenn í borginni Karachi. Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert