Foreldrar ákærðir fyrir manndráp af gáleysi

AFP

Foreldrar fimm ára drengs, sem drukknaði í skemmtigarði í bænum Hinckley í Bretlandi í júlí á síðasta ári, hafa verið ákærðir fyrir manndráp af gáleysi. Drengurinn, Charlie Dunn, fannst látinn í stöðuvatni í garðinum og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að annar drengur, sem var að leita að gleraugunum sínum, hafi fundið Dunn sem hafði reikað í burtu á meðan foreldrar hans komu farangri þeirra fyrir í fjölskyldubifreiðinni á leið úr garðinum.

Foreldrarnir, móðir Dunns og fósturfaðir, voru handteknir eftir dauða hans vegna gruns um manndráp af gáleysi. Fólkið var síðan látið laust síðar gegn tryggingu og ákærur á hendur því síðan látnar niður falla í desember. 

Fólkið var síðan handtekið á nýjan leik í mars og á miðvikudaginn kom það fyrir dóm þar sem það var ákært á nýjan leik. Einnig er um að ræða sjö ákæruliði vegna vanrækslu sem mun hafa átt sér stað á tímabilinu 2012-2016.

Þá hefur fósturfaðirinn verið ákærður fyrir að hafa tvisvar hótað vitni í málinu sem mun hafa gerst í mars og júní á þessu ári. Þá er hann ákærður fyrir að hafa hótað að valda eignaspjöllum með íkveikju í þessum mánuði og fyrir umferðarlagabrot.

Fósturfaðirinn verður áfram í haldi lögreglu en móðir drengsins hefur verið látin laus gegn tryggingu. Málið verið tekið aftur fyrir 5. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert