Grjóthnullungar féllu úr fjallinu

Björgunarmenn leita í veikri von um að finna einhvern á …
Björgunarmenn leita í veikri von um að finna einhvern á lífi. AFP

Kínverskar björgunarsveitir leita nú að fólki sem varð undir skriðu í þorpi í suðvesturhluta landsins. Talið er að yfir 140 manns hafi orðið undir skriðunni. Stórir grjóthnullungar ruddust yfir þorpið er skriða varð í fjalli fyrir ofan það.

Hjónum og ungu barni var bjargað í nótt. Skriðan fór yfir meira en fjörutíu heimili í þorpinu Xinmo. Skriðan stíflaði einnig á og fór yfir veg. 

Björgunarmenn nota m.a. snæri til að velta risastórum grjóthnullungum úr vegi í leit að fólki á lífi. Stórar jarðýtur eru einnig notaðar við verkið.

Óttast er að flestir þeirra sem urðu undir skriðunni séu látnir. 

Mikið hefur rignt á svæðinu síðustu daga og er talið að það hafi orsakað skriðufallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert