Martha er ljótasti hundur heims

Martha hristi hausinn með tilþrifum er úrslitin voru ljós.
Martha hristi hausinn með tilþrifum er úrslitin voru ljós. AFP

Martha er risastór löt tík sem prumpar í sífellu. Og nú hampar hún titlinum ljótasti hundur heims.

Síðustu ár hafa hárlausir, smávaxnir og aldraðir hundar unnið keppnina sem haldin er árlega í Bandaríkjunum og nú í 29. sinn.

Martha er þriggja ára, af tegundinni Neapolitan Mastiff og er um 60 kíló að þyngd. Hún heillaði dómarana upp úr skónum. Martha á það til að hlamma sér niður þegar letin tekur völdin og það gerði hún ítrekað á sviðinu í gær svo skinnið á höfði hennar, sem hún hefur meira en nóg af, nær huldi trýnið. Slíkt sjálfstæði féll dómurunum vel í geð en á hefðbundnari hundasýningum hefði Martha ekki átt möguleika.

Shirley Zindler, eigandi Mörthu, strýkur henni um höfuðið meðan á …
Shirley Zindler, eigandi Mörthu, strýkur henni um höfuðið meðan á keppninni í Kaliforníu stóð. AFP

Martha er einna þekktust fyrir það að hrjóta ógurlega. Hún sofnaði reyndar ekki í keppninni svo að dómararnir fengu ekki að heyra óhljóðin. Það kom ekki að sök: Hún þótti skara fram úr.

„Ég myndi fagna en ég verð að fá mér blund,“ sagði eigandinn, Shirley Zindler, að Martha væri eflaust að hugsa er hún fékk verðlaunin.

Keppnin um ljótasta hund heims er haldin til að vekja athygli á velferð dýra. Margir hundanna sem keppa hefur verið bjargað úr höndum eigenda sem ekki sinntu þeim eða fóru illa með þá. 

Martha hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla. Henni var bjargað undan illri meðferð af dýraverndunarsamtökunum Dogwood Animal Rescue Project sem standa að keppninni. Hún var að verða blind vegna vanrækslunnar en nú hefur hún fengið nýjan eiganda sem sinnir henni vel. 

Keppinautar Mörthu í ár voru smávaxnari en hún (sjá myndir hér að neðan). Í raun var það svo að Martha var eini keppandinn sem eigandinn gat ekki haldið á.

Josie er af tegundinni Chinese Crested. Hún tók einnig þátt …
Josie er af tegundinni Chinese Crested. Hún tók einnig þátt í keppninni um titilinn ljótasti hundur heims. AFP
Icky var einnig meðal keppenda. Hér er hann með eigandanum …
Icky var einnig meðal keppenda. Hér er hann með eigandanum Jon Adler. AFP
Precious, sem er af tegundinni Chihuahua, heilsar upp á Mörthu.
Precious, sem er af tegundinni Chihuahua, heilsar upp á Mörthu. AFP
Jake var meðal keppenda en hann þótti ekki nógu ljótur.
Jake var meðal keppenda en hann þótti ekki nógu ljótur. AFP
Rascal vildi stökkva niður af dómaraborðinu.
Rascal vildi stökkva niður af dómaraborðinu. AFP
Rascal gerði sitt besta en vann ekki.
Rascal gerði sitt besta en vann ekki. AFP
Shirley Zindler hjálpar Mörthu að veifa til áhorfenda eftir að …
Shirley Zindler hjálpar Mörthu að veifa til áhorfenda eftir að úrslitin voru kynnt. Martha var frekar þreytt en hún er þekkt fyrir leti sína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert