Bæjarstjóri sem sleikir borgara sína

Brynn háði heiðarlega kosningabaráttu.
Brynn háði heiðarlega kosningabaráttu.

Brynneth Pawltro, nýkjörinn bæjarstjóri í smábænum Rabbit Hash í Kentucky, hefur fallegt bros og er sérlega viðkunnanleg. Hún sleikir líka þá sem hún hittir.

Brynneth, eða Brynn eins og hún er kölluð, er þriggja ára gömul tík af Pittbull-kyni. Hún er fjórði bæjarstjóri Rabbit Hash af hundakyni. Hún tók við stöðunni af Border collie-tíkinni Lucy Lou. Brynn naut yfirburðastuðnings í kosningunum og hlaut rúmlega 3.300 atkvæði. Þar með skaut hún kettinum Stellu og asnanum Higgins ref fyrir rass.

Forveri hennar í starfi naut mikillar hylli og um tíma ætlaði hún að gefa kost á sér til forseta. 

Kosningarnar fóru reyndar fram á síðasta ári og Brynn tók við embættinu í byrjun árs en á síðustu dögum hefur fréttin um kjörið farið eins og eldur í sinu um netheima. Eigandi Brynn segir að hún ætli sér að stjórna af ást og friði.

Í frétt AP-fréttastofunnar um málið segir að Rabbit Hash sé svo lítill bær að engin þörf sé í raun á bæjarstjóra. Íbúarnir hafi hins vegar ákveðið að efna til söfnunar til góðgerðarmála með uppátæki sínu. Í fyrra brann verslun bæjarins til kaldra kola og í kosningunum nú var því safnað til enduruppbyggingar hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert