Flugstjórinn hvatti farþega til að biðja

Farþegarnir héldu ró sinni en voru þó óttaslegnir.
Farþegarnir héldu ró sinni en voru þó óttaslegnir. Skjáskot/YouTube

Vél flugfélagsins Air Asia X, sem var á leið til Malasíu frá Ástralíu, var snúið til baka eftir að gríðarlegur titringur hófst í henni. Vélin er breiðþota af gerðinni Airbus A330-300. Flugfélagið segir að tæknilegt vandamál hafi orsakað titringinn sem minnti helst á þvottavél að vinda að sögn farþeganna sem margir hverjir urðu mjög óttaslegnir.

Talsmaður flugvallarins í Perth í Ástralíu segir að vélin hafi lent heilu og höldnu á vellinum eftir að henni var snúið við.

„Við vorum sofandi en vöknuðum við háan skell þegar vélin hafði verið í loftinu í rúman klukkutíma,“ segir einn farþeganna í samtali við CNN. „Hún hristist alla leiðina til baka og sú ferð tók um tvær klukkustundir.“

Ekki er enn ljóst hvað olli þessum mikla titringi en vélin er knúin hreyflum frá Rolls-Royce.

„Þetta var hræðilegt, virkilega hræðilegt,“ segir farþeginn sem CNN ræddi við. Hann segir að flugstjórinn hafi tvisvar sinnum beðið farþegana að fara með bænir sínar. Allt fór þó vel að lokum og farþegar klöppuðu er vélin lenti í Ástralíu.

Þegar farþegarnir gengu út úr vélinni í Perth stóð flugstjórinn við útganginn og tók í höndina á hverjum og einum.

Hér að neðan má sjá myndband sem farþegi tók upp um borð í vélinni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert