„Látni“ sonurinn birtist sprelllifandi

Líkið í kistunni reyndist ekki vera af syni Franks.
Líkið í kistunni reyndist ekki vera af syni Franks. AFP

Ellefu dögum eftir að Frank J. Kerrigan hafði jarðað son sinn fékk hann símtal frá vini. „Sonur þinn er á lífi,“ var sagt. Kerrigan bað um að fá að heyra í honum. „Hæ pabbi,“ sagði sonur hans og nafni, Frank. 

Í ljós hefur komið að starfsmenn dánardómstjóra í Orange-sýslu í Kaliforníu höfðu gert mistök. Þeir töldu líkið sem þeir voru með vera af Frank yngri. 

Í frétt AP-fréttastofunnar um málið segir að upphaf málsins megi rekja til 6. maí. Þá fannst maður látinn á bak við raftækjaverslun í bænum Fountain Valley.

Frank eldri fékk símtal frá dánardómstjóranum þar sem honum voru færð þau tíðindi að sonur hans væri látinn. Frank yngri hefur lengi glímt við geðræn vandamál og hafst við á götunni. 

Sögðust hafa borið kennsl á líkið

Starfsmaður dánardómstjóra sagði að Frank þyrfti ekki að bera kennsl á lík sonar síns, það hefði þegar verið gert með fingrafari. Það reyndist svo ekki rétt.

„Þegar einhver segir manni að sonur manns sé látinn, vitandi að þeir voru með fingraför hans, þá trúir maður þeim,“ segir Frank eldri sem er orðinn 82 ára. Sonur hans er 57 ára. 

Carole Meikle, systir Franks yngri, fór á staðinn þar sem líkið fannst og lagði þar mynd af bróður sínum, blóm og kveikti á kerti. 

Þann 12. maí fór útförin fram. Um fimmtíu vinir og ættingjar fjölskyldunnar mættu til athafnarinnar. Voru sumir komnir langt að. Bróðir Franks yngri hélt líkræðu.

„Við héldum að við værum að jarða bróður okkar,“ segir Carole Meikle.

Nokkrum dögum eftir útförina fékk Frank eldri svo símtalið um að sonur hans væri á lífi. 

Lögmaður fjölskyldunnar segist hafa fengið þær upplýsingar að fingraför hins látna, sem fannst bak við raftækjaverslunina, hafi ekki fundist í gagnagrunni lögreglunnar. Þess í stað hafi dánardómstjóri borið kennsl á hann með því að styðjast við margra ára mynd af Frank úr ökuskírteini hans. 

Kýs að búa á götunni

Talsmaður dánardómstjórans segir alla harma atvikið og þyki leitt að fjölskyldan hafi þurft að upplifa gríðarlega sorg að ósekju.

Þar sem Frank yngri hafði verið úrskurðaður látinn missti hann örorkubætur sínar. Unnið er að því að koma þeim aftur á.

Frank kýs enn að búa á götunni og virðist, að sögn systur sinnar, ekki átta sig á hversu mikla sorg fjölskyldan hefur gengið í gegnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert