Nályktin fyllir vitin

Lík vígamanns liggur innan um brak húsanna á götu í …
Lík vígamanns liggur innan um brak húsanna á götu í gamla borgarhlutanum í Mosúl. AFP

Gjörónýtar byggingar. Haugar af braki og rotnandi lík á víð og dreif. Engu er líkara en að plágur gamla testamentisins hafi herjað á gamla borgarhlutann í Mosúl í Írak, þar sem stjórnarherinn berst við vígamenn Ríkis íslams. 

Mohammed al-Tamim liðsforingi gengur fram hjá líki eins vígamannsins þar sem það liggur á götunni, hálfgrafið undir braki úr fallinni byggingu. Það er eins og hann taki ekki eftir því, jafnvel þótt hann gangi þrisvar sinnum fram hjá því. Fram og til baka. 

Líkið hefur verið að rotna dögum saman í um 40 stiga hita. Það er bólgið og svart og sterka nálykt leggur frá því.

Hinn skeggjaði vígamaður hefur látist með vopn sitt í höndunum. 

LiðsforinginnSalam al-Obeidi telur að aðeins nokkur hundruð vígamenn Ríkis íslams séu enn í gömlu borginni. Fyrir þremur árum hertóku hryðjuverkasamtökin Mosúl og gerðu hana að höfuðborg sinni í Írak og miðstöð kalífadæmisins sem þeir stofnuðu. En nú eru aðeins örfáir þeirra eftir og það á litlu svæði.

Gamla borgin var eitt sinn fallegt hverfi Mosúl. Nú blasir …
Gamla borgin var eitt sinn fallegt hverfi Mosúl. Nú blasir eyðileggingin við hvert sem auga er litið. AFP

Reglulega er hleypt af hríðskotabyssum, sprengjur sprengdar og hvellirnir bergmála í rústum húsanna. Stjórnarhermennirnir sækja stöðugt fram og hafa umkringt síðustu svæðin sem vígamennirnir halda enn til á. „Þeir gefa sig aldrei fram sjálfviljugir,“ segir Tamim, „og ef þeir eru ekki drepnir þá sprengja þeir sig í loft upp og drepa sjálfa sig.“

Meðfram götunum liggja mótorhjól sem voru eitt sinn hlaðin sprengiefnum og notuð til árása. Nú liggja hræ þeirra um strætin. 

Vígamennirnir hafa reynt hvað þeir geta til að hægja á framgöngu stjórnarhersins í borginni. Þeir hafa meðal annars beitt sjálfsvígssprengjumönnum í því verkefni sínu.

Brak húsa og húsþaka fyllir þröngar göturnar. Stundum eru hrúgurnar margra metra háar. 

Ótal loftárásir hafa verið gerðar á Mosúl síðustu misseri. Þær voru nauðsynlegar, að sögn hersins, til að ná yfirráðunum. 

„Við sjáum fullt af líkum. Við erum að leita þeirra sem enn lifa,“ segir hermaður sem þræðir göturnar. 

Stjórnarhermaður, grár fyrir járnum, leitar vígamanna Ríkis íslams í Mosúl.
Stjórnarhermaður, grár fyrir járnum, leitar vígamanna Ríkis íslams í Mosúl. AFP

Eyðileggingin er yfirþyrmandi. Margar byggingar hafa verið jafnaðar við jörðu. Raflínur hanga utan á braki þeirra og leifar af bílum, sem sprengdir hafa verið í loft upp, liggja svo ofan á öllu saman. 

Faruq-hverfið var eitt sinn fullt af lífi. Nú blasir auðnin ein við. Í þeim fáu húsum sem enn standa er allt í óreiðu. Húsgögn, föt, leikföng og eldhúsáhöld liggja á gólfum. Það er ekki sálu að sjá inni í þeim.

Íraski herinn segist hafa reynt að gera allt sem í hans valdi stendur til að skaða ekki óbreytta borgara í áhlaupi sínu á borgina. Talið er að tugir þúsunda íbúa séu innlyksa í gamla borgarhlutanum og að vígamenn Ríkis íslams noti þá sem mannlega varnarskildi þegar sóknin á jörðu niðri ágerist.

Mæðgur frá Mosúl sem hafast nú við í Salamya-flóttamannabúðunum.
Mæðgur frá Mosúl sem hafast nú við í Salamya-flóttamannabúðunum. AFP

Aðgerðir til að ná Mosúl aftur á vald stjórnvalda hófust fyrir einu og hálfu ári. Þann átjánda júní var svo gert stórt áhlaup. Um var að ræða stærstu hernaðaraðgerð sem gerð hefur verið í landinu í fleiri ár. 

Fleiri hundruð vígamenn hafa fallið frá því í október. Hundruð óbreyttra borgara hafa einnig fallið í valinn. Yfir 800 þúsund íbúar hafa orðið að yfirgefa heimili sín og margir hafast enn við í flóttamannabúðum.

Þeir sem lifað hafa orrustuna um borgina af hafa flestir misst einhvern nákominn. Vígamenn hafa drepið suma, aðrir hafa fallið í átökum. 

Enn er svo alls óvíst hvað tekur við þegar borgin hefur verið frelsuð úr höndum hryðjuverkasamtakanna. Mörg heimili eru ónýt og allir innviðir Mosúl eru í lamasessi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert