Vilja fríverslun við Bretland

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Japanar vilja hefja óformlegar fríverslunarviðræður við Bretland samhliða viðræðum sem verið hafa í gangi við Evrópusambandið undanfarin ár. Bretar eru á leið úr sambandinu en geta ekki hafið formlegar fríverslunarviðræður fyrr en af útgöngunni hefur orðið.

Fram kemur í frétt AFP að markmið ráðamanna í Japan sé að lágmarka áhrif útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á japönsk fyrirtæki. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur sagt að hann vilji ganga frá fríverslunarsamningi við sambandið í næsta mánuði. 

Rúmlega eitt þúsund japönsk fyrirtæki eru með starfsemi í Bretlandi og eru starfsmenn þeirra í landinu samanlagt 140 þúsund manns. Japönsk stjórnvöld hafa varað þarlend fyrirtæki við því að þau kunni að þurfa að flytja starfsemi sína til meginlands Evrópu í kjölfar samnings á milli Bretlands og Evrópusambandsins verði hann ekki nægjanlega hagstæður.

Japönsk stórfyrirtæki með starfsemi í Bretlandi hafa til þess hins vegar lýst yfir trausti sínu á bresku efnahagslífi þrátt fyrir fyrirhugaða útgöngu úr Evrópusambandinu og hafa mörg þeirra aukið fjárfestingar sínar í landinu eða hafa áform um að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert