Bláháfur veldur usla við Mallorca

Hákarlinn synti afar nálægt strandgestum og sást synda aðeins nokkra …
Hákarlinn synti afar nálægt strandgestum og sást synda aðeins nokkra metra frá sundfólki, sem þaut í land. Bláháfar geta orðið 3,8 metra langir og veiða venjulega fisk og smokkfisk. Þeir hafa í einstaka skipti hringsólað um kafara og ráðist á fólk. Ljósmynd/Wikipedia

Bláháfur, sem olli miklum usla um helgina er hann sást á svamli við strendur Mallorca, hefur nú verið fangaður. Hákarlinn synti afar nálægt strandgestum og sást synda aðeins nokkra metra frá sundfólki, sem skaust í land. Í kjölfarið þurfti að tæma og loka ströndinni. Háfurinn var verulega særður, líklega eftir skutul.

Samkvæmt Guardian sást dýrið á laugardaginn er það synti um grunnsævi strandanna við Cala Major og Can Pastilla, nálægt Palma, höfuðborg Mallorca. Lífverðir gáfu viðvörunarmerki og skipuðu öllum að koma úr vatninu. Í kjölfarið þurfti að tæma og loka ströndinni. Sérfræðingar leituðu svo á svæðinu að hákarlinum.

Hákarlinn fannst að lokum og var fangaður í gær um síðdegi. Samkvæmt blaðinu „Diario de Mallorca“ fannst hákarlinn afar særður, með alvarleg höfuðmeiðsl eftir skutul. Það er ekki víst hvort hákarlinn hafi verið særður fyrir eða eftir að hann sást á ströndinni. Sérfræðingar frá sædýrasafni Palma segja hákarlinn hafa virst vera að deyja og þeir séu nú að íhuga hvort skuli drepa hann eða ekki.

Vitni frá ströndinni tjáði sig um atvikið á samfélagsmiðlinum Facebook og lýsti atburðinum. Hún bætir svo við: „Ég harma það hvað hákarlar þurfa nú að koma nálægt ströndunum þar sem við erum að eyðileggja vistkerfi þeirra og þeir verða að lifa af.“

Bláháfar geta orðið 3,8 metra langir og veiða venjulega fisk og smokkfisk. Þeir hafa í einstaka skipti hringsólað um kafara og ráðist á fólk. Til dæmis var maður bitinn í júlí á síðasta ári undan ströndum Spánar og var þá talið líklegt að um bláháfabit væri að ræða.  

Undanfarið hefur hákörlum verulega fækkað og er það líklega sökum ólöglegra veiða en samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna er hákarl veiddur til átu og uggar hans gjarnan notaðir í súpu.

Hér má sjá myndband Guardian af hákarlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert