Jómfrúarferð á 400 kílómetra hraða

Kína hyggst fjöldaframleiða þessa nýju lest og efla enn frekar …
Kína hyggst fjöldaframleiða þessa nýju lest og efla enn frekar háhraðajárnbrautakerfi landsins. Fyrir er Kína með lengsta járnbrautakerfi heims eða um 22.000 kílómetra. Myndin sýnir ekki Fuxing-lestina heldur eina af mörgum háhraðalestum landsins. AFP

Hin nýja „Fuxing“-hraðlest fór í dag í sína fyrstu ferð frá Peking til Shanghai. Meðalhraði lestarinnar er um 350 km á klukkustund en hámarkshraði hennar getur orðið 400 km/klst. Samkvæmt Lestarstofnun Kína, NRA, er hin nýja lest að öllu leyti kínversk í hönnun og framleiðslu.

Þessu greinir kínverski netmiðillinn CGTN frá í dag.  

Fyrsta lestin, CR400AF, fór í dag frá lestarstöðinni í Suður-Peking kl. 11:05 á leið til Shanghai. Önnur sambærileg lest, CR400BF, fór frá Hongqiao-lestarstöðinni í Shanghai til höfuðborgarinnar á sama tíma. Það tók lestina frá Peking fimm klukkutíma og 45 mínútur að ná Shanghaí. Á leiðinni stoppaði hún á 10 lestarstöðvum, þar á meðal í Jinan og í Tianjin.

Að sögn NRA þýðir nafngiftin „Fuxing“ endurnýjun á kínversku. „CR“ stendur fyrir kínverska lestakerfið og númerið 400 táknar þann hraða sem lestin getur mest farið á.

Nýju lestirnar eru rýmri en eldri gerðir samkvæmt NRA og búnar þægindum á borð við þráðlausa nettengingu. Alls hafa verið settir upp 2.500 skynjarar til að bregðast sjálfkrafa við hættum. Lestirnar er hægt að nýta við hitastig frá -40 til 40 gráður á Celsíus. Að auki nýtir nýja lestin 17 prósent minni orku en eldri gerðir.

Kína hyggst fjöldaframleiða þessa nýju lest og efla enn frekar háhraðajárnbrautakerfi landsins. Fyrir er Kína með lengsta járnbrautakerfi heims eða um 22.000 kílómetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert