Kynlífsmyndskeið kostaði þingsætið

Jean-Paul Dupré er til vinstri á myndinni.
Jean-Paul Dupré er til vinstri á myndinni. AFP

Franskur bæjarstjóri og milljarðamæringur, Jean-Paul Dupré, hefur beðist opinberlega afsökunar eftir að kynlífsmyndskeið með honum og giftri konu var lekið á netið.

Dupré, sem sat á þingi fyrir sósíalista telur að myndskeiðið hafi kostað hann þingsætið en hann náði ekki endurkjöri í nýafstöðnum þingkosningum. 

Dupré, sem er bæjarstjóri í Limoux, skammt frá Toulouse, neyddist til þess að biðjast afsökunar á framferði sínu á fundi bæjarráðs.

Bæjarstjórinn hefur kært bloggara, Boris Le Lay, fyrir að hafa dreift myndskeiðinu en Le Lay setti það inn á YouTube og þaðan fór það víða á samfélagsmiðlum.   

Le Lay, sem er fasisti að eigin sögn, hefur birt fjölmörg pólitísk myndskeið á YouTube og beinast mörg þeirra gegn bæjarstjóranum persónulega.

Le Lay heldur til í Japan en handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur honum í heimalandinu fyrir rasisma.

Dupré sagði þegar hann baðst afsökunar á myndskeiðinu að fólk mætti ekki gleyma því hverjir væru fórnarlömbin. „Fórnarlömbin, ekki gleyma því, er fjölskyldan og ég.“ „Þeir sem eru sekir eru þeir sem dreifðu myndskeiðinu í þeim tilgangi að skaða mig og orðspor mitt,“ bætti Dupré við.

Frétt La Depeche

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert