Láttu vaða við björgum þér

Gestir í skemmtigarði í New York björguðu skelfingu lostinni 14 ára gamalli stúlku sem hékk í leiktæki í 7,5 metra hæð með því að mynda hring og gripu hana þegar hún féll til jarðar. Láttu vaða við björgum þér, kallaði einn gestanna til stúlkunnar.

Að sögn vitna hefði stúlkan örugglega látist eða slasast alvarlega hefðu gestir í garðinum ekki brugðist svo snöggt við. Ekki er vitað hvers vegna stúlkan losaði sig úr tækinu, hvort það var lofthræðsla eða eitthvað annað.

Howard og dóttir hans Leeann Winchell eru meðal þeirra sem tóku þátt í að mynda hring fyrir neðan stúlkuna. Í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina segir Howard að hann hafi litið upp og séð stúlkuna hangandi úr tækinu. Litli bróðir hennar sat enn í tækinu hágrátandi.

„Ég sagði: þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi, láttu vaða og ég gríp þig vinan. Ég læt þig ekki falla til jarðar,“ segir Howard í viðtalinu.

Þegar hún féll tók Howard ásamt fleiri gestum á móti stúlkunni og komu í veg fyrir alvarlegt slys. Howard meiddist lítillega í baki en hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. „Ég gat ekki látið þessa litlu stúlku deyja,“ sagði Howard í viðtali við AP-fréttastofuna. 

NBC

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert