Reyndi að komast út í miðju flugi

Farþegaþota á vegum Southwest Airlines.
Farþegaþota á vegum Southwest Airlines. Af Wikipedia

Flugvél á leið frá Los Angeles til Houston í Bandaríkjunum þurfti að víkja af leið eftir að kona reyndi að opna neyðarútganginn undir lok ferðarinnar. Konan var yfirbuguð af lögreglukonu sem hóf störf tveimur vikum áður. Þessu er greint frá á fréttavef Breska ríkisútvarpsins. 

Einn farþeganna sagði við fjölmiðla að konan hefði ekki verið í jafnvægi í morgunfluginu, hún hefði skrifað „hjálpaðu mér“ og nafnið sitt á servíettu. 

„Ég vissi að eitthvað væri ekki í lagi,“ sagði farþeginn og bætti við að hegðun konunnar hefði vakið athygli áður en gengið var til borðs í flugvélina á flugvellinum í Los Angeles. „Þetta var skrýtið, eins og eitthvað sem þú sérð bara í sjónvarpinu. Þér dettur ekki í hug að lenda í þessu.“

Flugfélagið Southwest Airlines gaf út tilkynningu þar sem kom fram að flugmaðurinn hefði þurft setja stefnu á Corpus Christi í Texas eftir að áhöfnin greindi frá því að mögulega væri hættulegt ástand um borð.

Annar farþegi sagði við fjölmiðla að konan hefði komist nálægt því að opna neyðarútganginn í afturhluta vélarinnar. Konan mun hafa neitað að setjast niður, gengið fram og aftur eftir gangveginum og haft orð á því að ríkisstjórnin beitti hana órétti. 

Lögreglukonan sem um ræðir er Pamela Minchew. Hún var á leið heim úr tveggja vikna fríi með börnunum sínum og hafði gengið til liðs við lögregluna í Texas tveimur vikum áður. 

Sérfræðingar hafa bent á að vegna loftþrýstings sé nær ómögulegt fyrir farþega að opna dyrnar í miðju flugi. Þá eru dyrnar einnig læstar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert