„Sigur fyrir þjóðaröryggið“

Trump fagnaði sigri í dag þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði hluta …
Trump fagnaði sigri í dag þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði hluta umdeilds ferðabanns forsetans. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því fyrr í dag „sigur fyrir þjóðaröryggi landsins“ en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að heimila ákveðna hluta svokallaðs ferðabanns ríkisstjórnar Trump gegn íbúum sex múslimaríkja.

Forsetinn sagði úrskurðinn m.a. heimila bann við ferðum frá hinum „hryðjuverkagjörnu“ ríkjum. „Ég get ekki, sem forseti, leyft þeim að koma til landsins sem vilja vinna okkur skaða,“ sagði Trump í yfirlýsingu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að framfylgja banninu gagnvart þeim einstaklingum sem hefðu engin skýr tengsl við einstaklinga eða lögaðila í Bandaríkjunum. Niðurstaða dómstólsins verður í gildi fram á haust en þá hyggst dómstóllinn úrskurða um ferðabannið í heild sinni.

Bannið nær til ríkisborgara Íran, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen. Þeir sem vilja ferðast til landsins frá fyrrnefndum ríkjum verða að sýna fram á persónuleg tengsl við Bandaríkin eða ærið tilefni, t.d. boð um að stunda nám við bandarískan háskóla.

Aðrir dómstólar höfðu hafnað banninu, m.a. á þeim forsendum að í því fælist mismunun og að forsetinn hefði farið út fyrir valdsvið sitt. 

Trump sagði í dag að niðurstaða Hæstaréttar væri sigur fyrir nálgun sína við málið en það væri helsta hlutverk forsetans að tryggja öryggi þjóðarinnar.

Í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra sagðist Trump helst vilja banna öllum múslimum að ferðast til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert