Trump heimtar afsökunarbeiðni

Donald Trump er orðinn langþreyttur á ásökunum demókrata.
Donald Trump er orðinn langþreyttur á ásökunum demókrata. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti heimtar afsökunarbeiðni vegna ásakana í hans garð um tengsl við yfirvöld í Rússlandi. Þá hefur hann sótt að forvera sínum Barack Obama á síðustu dögum fyrir að hafa ekki brugðist við upplýsingum um að Rússar hefðu gert tilraun til að hagræða úrslitum kosninganna. 

Megnið af forsetatíð sinni sem hófst í nóvember hefur Trump legið undir ásökunum og sætt rannsóknum sem varða meint samráð milli starfsfólks í kosningabaráttu hans og yfirvalda í Rússlandi til að hafa áhrif á úrslit kosninganna.

Í nýlegri umfjöllun The Washington Post er rakið hvernig Obama hefði hikað þegar hann frétti af íhlutun Rússa. Þar var greint frá því að bandarísk stjórnvöld hefðu í fjórgang áminnt yfirvöld í Rússlandi vegna málsins en Obama hefði ákveðið að setja gagnaðgerðir á hakann. Eftir umfjöllunina hefur Trump gagnrýnt forvera sinn harðlega. 

„Fréttirnar ættu fremur að snúast um að Obama gerði ekkert eftir að hafa fengið upplýsingar um íhlutun Rússa í ágúst,“ skrifaði Trump á Twitter í dag. Hann sakaði Obama um að hafa haldið aftur af sér vegna þess að hann hafi búist við að Hillary Clinton ynni kosningarnar og hefði því ekki viljað rugga bátnum.

„Eftir fjóra mánuði undir smásjánni hafa þeir ekki fundið neinar upptökur sem benda til samráðs. Það er ekkert samráð og engin fyrirstaða. Ég ætti að fá afsökunarbeiðni!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert