Trump og Modi faðmast í Hvíta húsinu

Donald Trump og Narendra Modi kom vel saman eftir fundinn …
Donald Trump og Narendra Modi kom vel saman eftir fundinn í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti bauð Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, velkominn í Hvíta húsið í dag. Þetta er fyrsti fundur leiðtoganna sem reyna nú að byggja brýr milli tveggja stærstu lýðræðisríkja heims. 

Þrátt fyrir skiptar skoðanir um mál eins og fólksflutninga og loftslagsbreytingar er búist við að Modi fullvissi Trump um að Bandaríkin þurfi ekki að óttast vaxandi efnahagsstyrk Indlands. Indland er það hagkerfi heims sem vex hraðast um þessar mundir og vonast Modi til þess að auka erlenda fjárfestingu í landinu, meðal annars með því að hvetja framleiðendur til þess að útvista framleiðslu sinni til Indlands. 

Trump hefur lagt áherslu á að fríverslunarsamningar hafi ekki verið Bandaríkjunum í hag en Modi virðist meðvitaður um viðskiptanálgun Trumps. Í Wall Street Journal skrifaði Modi: „Í óvissuástandi á heimsvísu standa þjóðirnar tvær saman og styrkja hvor hjá annarri hagsæld og nýsköpun.“

„Umbreyting Indlands afhjúpar gnægð viðskiptatækifæra fyrir bandarísk fyrirtæki,“ sagði Modi enn fremur. Ríkisstjórn hans stefnir að því að innleiða nýtt skattfyrirkomulag sem ætlað er að draga úr skrifræði og auðvelda viðskipti. 

AFP

Trump og Modi ræddu saman síðdegis á forsetaskrifstofunni, líklega um milliríkjaviðskipti og stríðið í Afganistan. Yfirvöld í Washington íhuga að senda 5.000 hermenn til Afganistan og vonast til að Indland leiki hlutverk í baráttunni gegn uppreisnarhópum þar í landi. Þá hefur ríkisstjórn Trumps gefið til kynna að Bandaríkin taki harðari afstöðu gegn Pakistan, sem Indverjar hafa sakað um að hýsa andspyrnuhreyfingar. 

Áður en leiðtogarnir tveir hittust fór Modi á fund með Rex Tillersson utanríkisráðherra og Jim Mattis varnarmálaráðherra og munu þeir hafa rætt fyrirhuguð kaup indverska hersins á bandarískum hergögnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert