Trump þiggur heimboð Macron

Trump og Macron í Brussel.
Trump og Macron í Brussel. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegið boð Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að taka þátt í hátíðarhöldum í París á Bastilludaginn, 14. júlí. Trump verður m.a. viðstaddur skrúðgöngu eftir Champs-Elysees, þar sem bandarískir hermenn munu ganga við hlið franskra hermanna til að fagna því að öld er liðin frá því að Bandaríkin gengu til liðs við bandamenn í fyrri heimsstyrjöldinni.

„Trump forseti hlakkar til þess að treysta sterk vináttutengsl Bandaríkjanna og Frakklands, að fagna þessum mikilvæga degi með frönsku þjóðinni og minnast 100 ára afmælis þátttöku Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Þá segir einnig í tilkynningunni að leiðtogarnir tveir, sem háðu fræga handabands-baráttu í Brussel í síðasta mánuði, myndu freista þess að efla samstarf þjóðanna í efnahagsmálum og baráttunni gegn hryðjuverkum.

Macron og Trump greinir verulega á um aðgerðir í loftslagsmálum og brást sá fyrrnefndi við ákvörðun þess síðarnefnda um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu með því að senda frá sér myndskeið þar sem hann skorar á menn að „gera plánetuna frábæra á ný“. Um er að ræða skot á Trump, sem hefur ítrekað heitið því að gera hið sama fyrir Bandaríkin.

Trump á enn inni heimboð á Bretlandseyjum en ekkert hefur heyrst af mögulegum ferðum hans þangað. Skrifstofa forsætisráðherrans Theresu May segir áætlanir um heimsókn Trump enn á borðinu en Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafa kallað eftir því að forsetinn haldi sig fjarri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert