Ótti og glundroði í Venesúela

Lögreglan reyndir að hemja mótmælin gegn ríkisstjórn Maduros.
Lögreglan reyndir að hemja mótmælin gegn ríkisstjórn Maduros. AFP

Svo að unnt sé að átta sig á ástandinu í Venesúela þarf aðeins að horfa til atburðarásarinnar í gær í borginni Maracay í norðurhluta landsins. Þar fer múgur ránshendi um göturnar og skilur eftir sig tómar verslanir og sært fólk.

Að sögn vitna skaut lögregla ungan mann í kinnina og varð honum þannig að bana. Lögreglan hafði reynt að ná tökum á ástandinu í borginni en fjöldi fólks fór ránshendi um búðir í Santa Rita-hverfinu. Eftir byssuhvellinn hvarf lögreglan af svæðinu og múgurinn, vopnaður hnífum, setti stefnu sína á næstu búð; áfengisverslun.

Þegar reynt var að binda enda á ofbeldið um nóttina var hermaður skotinn til bana. Á meðan einn maður kraup og grét við líkið gekk fólk fram hjá með kassa af rommi og bjór. 

„Lögreglan drap hann!“ hrópaði maðurinn. „Við erum ekki vopnuð, við viljum að þetta skítaland breytist, við viljum Maduro burt,“ sagði maðurinn við fréttateymi AFP. Hann breiddi lak yfir líkið og gekk síðan aftur til liðs við fjöldann. Skömmu síðar kom lögreglan með pallbíl og fjarlægði líkið.

Skemmdarverk

Í öllum glundroðanum stálu ræningjarnir upptökuvél AFP teymisins og ljósmyndari var sleginn í höfuðið þegar þeir reyndu að taka meiri búnað. Ofbeldið hóst þegar vegum var lokað á mánudaginn til þess að mótmæla ríkisstjórninni. Frá því að mótmælin hófust fyrir þremur mánuðum hafa 76 látið lífið.

Í Maracay er búið að tæma alla stórmarkaði, bakarí og apótek. Ræningjar brjóta upp vörugeymslur, þeir keyra gegnum hliðið og stela öllu steini léttara, jafnvel klósettpappír og hveiti. 

Kveikt var í byggingunni sem hýsti ríkissímafyrirtækið og bækistöð fyrir flokk Maduros forseta en enginn veitir því athygli þegar maður tilkynnir lögreglu að vélhjólið hans sé alelda í götuvígi mótmælanna. 

„Er þetta hungur? Nei, þetta eru skemmdarverk. Nú er eina bakaríið sem við höfðum í nágrenninu farið,“ segir Maria Velasquez, miðaldra kona. Eins og margir aðrir bað hún múginn um að hætta ránsferðunum við litlar undirtektir. 

Eftir að hafa rænt áfengisverslunina fylkist múgurinn að næstu búðum. Þær eru lokaðar og eigendurnir bíða hjálparlausir á götuhorninu. Einn hótar að kasta steini í átt að vélhjólamanni sem keyrði fram hjá með kassa af rommi. 

„Við getum ekki leyft okkar að vera hrædd. Það er ástæðan fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru,“ segir Gabriela Rodriguez, eigandi snyrtivöruverslunar. 

„Ekki yrða á þá, þetta fólk er hættulegt,“ segir gömul kona við hana á meðan einn kaupmaðurinn stærir sig af því að hafa hrætt ræningjana í burtu með því að hleypa af byssu í loftið. 

Lögreglan mætti múginum á brynvörðum bíl og tvístraði honum með táragasi við mikinn fögnuð búðareigenda. Samtals voru 200 handteknir. 

Ræningjarnir á vegum ríkisstjórnarinnar

Rodriguez segir að ránsaldan hafi byrjað þegar vopnuðum hópum á bandi ríkisstjórnarinnar, svokölluðum „colectivos“, hættu að berast matarkörfur frá ríkisstjórninni.

Eigandi apóteks sem var tæmt af ræningjunum segir að þetta sé allt hluti af áætlun Maduros til þess að „sá ótta og stöðva götumótmælin.“

„Þeir komu á pallbíl og skildu eftir hóp af ungum mönnum við hverja búð. Þeir komu með átta hingað,“ sagði eigandinn við AFP. 

Ótti og stjórnleysi ríkja í Maracay. Maður á vélhjóli nemur staðar hjá götusala og segir honum að ránsaldan fari hér yfir. „Hann sagði mér að pakka saman vegna þess að þeir kæmu á eftir,“ sagði götusalinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert